Fréttir

VÍSIR - Ráðherra hitti munaðarlaus börn

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra heimsótti í gær barnaheimili í Kolkata á Indlandi sem hefur átt í miklu og góðu samstarfi við Íslenska ættleiðingu (ÍÆ). Frá heimilinu hafa 160 indversk börn verið ættleidd til Íslands. 

Anja Roy og fjölskylda hennar reka barnaheimilið og var tekið vel á móti hinni íslensku sendinefnd í gær. Með í för voru Hörður Svavarsson, formaður ÍÆ, Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri, Guðmundur Einarsson, sendiherra Íslands á Indlandi, og fleiri fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu. Heimsóknin er liður í ferð ráðherra og fylgdarliðs hans um Asíu. 

Roy lýsti yfir mikilli ánægju með heimsóknina. Í vikunni verður setin ráðstefna indverskra stjórnvalda um nýjar indverskar ættleiðingarreglur. Einnig verður fundað með Ráðuneyti kvenna og barna er annast ættleiðingarmálaflokkinn á Indlandi, samkvæmt upplýsingum frá ÍÆ.

Ráðherra lýsti yfir í stuttu ávarpi á barnaheimilinu að Íslendingarnir væru komnir til Indlands til að votta starfsemi þeirra virðingu lands og þjóðar og fyrir þeirra göfuga starf og farsæl samskipti í rúman aldarfjórðung við Íslenska ættleiðingu og einnig til að kanna möguleikana á að eiga áfram bein samskipti við barnaheimilið.

http://visir.is/radherra-hitti-munadarlaus-born/article/2013702189937


Svæði