Fréttir

RÚV - Ættleiddu tvo stráka með sérþarfir

Eftir að hafa beðið í fjögur ár eftir að ættleiða barn frá Kína ákváðu hjónin Guðbjörg Grímsdóttir og Sigurður Halldór að freista þess að flýta ferlinu með því að ættleiða barn með sérþarfir. Fjórum vikum seinna héldu þau til Kína til að sækja soninn Kára.

Eftir sömu leið bættist Þór við í lok síðasta árs. Berglind Häsler hitti Guðbjörgu á dögunum sem sagði henni alla sólarsöguna. Hún segir biðina oft hafa verið erfiða og verður klökk þegar hún lýsir því þakklæti sem í brjósti hennar býr yfir því að eiga nú tvo heilbrigða og flotta stráka.

Við höfum fjallað undanfarið fjallað um ættleiðingar hér í Morgunútvarpinu. Starf íslenskrar ættleiðingar er í uppnámi. Að óbreyttu stefnir í að ættleiðingar verði að miklu leyti lagðar af. Formaðurinn segir að félagið fái aðeins brot af þeirri upphæð sem það þurfi til að geta uppfyllt lagalegar skyldur sínar. Hann segir að félagið þurfi rúmlega 60 milljónir króna en á fjárlögum er því ætlaðar rúmar 9 milljónir. Margir eru uggandi vegna þessa en fullyrt er að 9 milljónir dugi ekki til starfsins. Það er nefnilega ekki nóg að leggja bara inn umsókn. Ferlið er langt og strangt og fólk þarf mikinn stuðning bæði fyrir og eftir ættleiðingu.


Svæði