Fréttir

RÚV - Ættleiðing í uppnámi

Kólumbískur dómstóll hefur neitað íslenskum hjónum að ættleiða tvær kólumbískar systur en þau höfðu áður fengið heimild kólumbískra yfirvalda fyrir ættleiðingunni.

Þar ytra þarf dómstóll að úrskurða endanlega um að ættleiðingarferlið standist kröfur og hafa hjónin verið úti í Kólumbíu síðan í desember í fyrra og beðið í langan tíma, eða hálft ár, eftir niðurstöðu dómsins. Hjónin eru þau Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson, og segja þau frá þessu á Facebook síðu sem stofnuð hefur verið þeim til styrktar en vilja ekki tjá sig um málið.

Enn er óljóst hvaða rök dómarinn hafði fyrir synjuninni og nú er verið að þýða dóminn segir á vefsíðunni, en þar kemur líka fram, að dómarinn sem tók málið fyrir sé þekktur fyrir að leggjast gegn ákvörðunum kólumbísku ættleiðingarstofunarinnar. Hjónin og stúlkurnar, sem eru tveggja og fjögurra ára gamlar, hafa myndað náin tengsl á þessum mánuðum sem þau hafa þurft að dvelja úti, segir á vefsíðunni og að allt sé í óvissu með framhald málsins. Síðdegisútvarpið ræddi við Kristinn Ingvarsson, framkvæmdstjóri íslenskrar ættleiðingar.


Svæði