RÚV - Ættleiðingum fækkar
Ættleiðingum barna til vestrænna rikja hefur fækkað umtalsvert á síðustu tíu árum. 2003 var fjöldi ættleiddra barna rúmlega 41 þúsund en í fyrra nam fjöldi þeirra um 18 þúsund. Hér á landi voru 17 ættleiðingar í fyrra en það sem af er þessu ári hafa aðeins verið ættleidd fimm börn.
Þrjú börn hafa verið ættleidd frá Kína á þessu ári, eitt frá Tékklandi og eitt frá Afríkuríkinu Tógó. Reyndar eru tvær fjölskyldur staddar í Tékklandi sem eru að ganga frá ættleiðingu tveggja barna. Þannig að það stefnir í að að minnsta kosti verið 7 börn verði ættleidd frá útlöndum á þessu ári. En almennt er þróunin sú að ættleiðingum hefur fækkað á síðustu árum. Eftirspurnin hefur hins vegar ekki breyst. Meðal vestrænna ríkja hafa ættleiðingar frá Kína verið lang algengastar. Samkvæmt opinberum tölum voru á árunum 2003 til 11 ættleidd tæplega 80 þúsund börn frá Kína. Næstir koma Rússar með rétt rúmlega 50 þúsund börn. Í báðum þessum löndum hefur ættleiðingum fækkað mikið. 2011 voru rösklega fjögur þúsund börn frá Kína en fjöldi þeirra var yfir 11 þúsund 2003.