RÚV - Erfiðasta sem við höfum gert
Erfiðasta sem við höfum glímt við, segir kona sem, ásamt manni sínum, hefur beðið í 14 mánuði eftir forsamþykki til að ættleiða barn. Óvenju langur tími, segir framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar.
Þegar Unnur Björk Arnfjörð og eiginmaður hennar skiluðu inn öllum umbeðnum gögnum til Barnaverndarnefndar í ágúst í fyrra, fengu þau þær upplýsingar að ferlið tæki kannski sex mánuði. Nú eru liðnir 14 mánuðir og þau fá engin svör frá ættleiðingarnefnd.
Unnur segir að þegar hún og eiginmaður hennar ákváðu að ljúka meistaranámi hafi þau verið spurð um traust fjármagn. Þau útskrifuðust frá Háskóla Íslands á laugardag og eru bæði í vinnu. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Við erum náttúrulega búin að prófa ýmislegt í þessum málum en ég held að þetta ferli sé það erfiðasta sem við höfum svona glímt við. Þetta tekur mjög persónulega á, sálarlífið og allt okkar umhverfi," segir Unnur Björk.
Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar segir að slæmur fjárhagur og heilsa umsækjenda geti tafið ferlið. Eftir fjármálahrunið sé erfiðara að meta hvað sé traustur fjárhagur og óskað hafi verið eftir leiðbeiningum frá innanríkisráðuneytinu. Í dag meti barnaverndarnefndir hvort fjárhagur sé traustur og kannski þyrfti að fá hæfari fagmenn í fjármálum fólks til þess. „Við verðum að gera kröfu um að allt þetta ferli og þá sem að því standa, allar þessar stofnanir, að það sé unnið hratt og örugglega. Þetta er erfitt og flókið ferli fyrir umsækjendur. Velflestir eru búnir að ganga í gegnum ýmislegt áður en á þennan stað er komið. Og við verðum að passa upp á fólk," segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdarstjóri Íslenskrar ættleiðingar.