Rúv.is - Ættleiðingarstofum leyft að mismuna
07.05.2017 - 01:30
Erlent · Bandaríkin · Norður Ameríka
Nú þegar eru í gildi lög í fimm ríkjum Bandaríkjanna þar sem ættleiðingarstofum trúfélaga gefst kostur á að neita umsækjendum um að fá að ættleiða séu þeir samkynhneigðir eða af öðrum ástæðum sem særa trúarbrögð þeirra. Af þessum fimm ríkjum er Suður-Dakóta það eina sem leyfir ættleiðingarstofum á vegum hins opinbera að mismuna fólki líkt og ríkisþingið í Texas leggur til.
Til stóð að frumvarpið yrði til umræðu á þinginu í dag, laugardag, að sögn breska dagblaðsins Guardian. Svo varð hins vegar ekki þar sem önnur mál einokuðu daginn og því verður málið að bíða til næstu viku.
Repúblikanar eru í meirihluta ríkisþings Texas og styðja margir þingmenn flokksins ættleiðingarfrumvarpið. Stuðningsmenn segja frumvarpinu ætlað að styðja trúarlegt frelsi stofnanna. Andstæðingar segja það hins vegar ræna börn tækifærinu að flytja á heimili til stöðugra foreldra, og jafnframt sé opinberu fé þarna veitt til verkefnis sem mismunar fólki.
Catherine Oakley, mannréttindaráðgjafi við þingið, segir frumvarpið gera stofunum kleift að vísa hæfum, ástríkum foreldrum frá sem hafa ekkert annað til saka unnið en að særa trúarskoðanir þeirra sem eru innan stofanna. Hún segir þetta ganga gegn því sem börnunum er fyrir bestu og stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna. James Frank, þingmaður Repúblikana í Texas og flutningsmaður frumvarpsins, segir alla velkomna að sækja um ættleiðingar. Hins vegar sé stofunum ekki skylt að taka umsóknirnar til greina.
Talsmenn baráttusamtaka fyrir réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks, LGBT, segja frumvarpið eitt af 24 sem stuðla að misrétti í Texas.