Fréttir

Ruv.is - Fann alsystur sína með DNA-prófi

Miðvikudaginn 21.6.2023 birtist frétt á ruv.is 

Þegar hin 15 ára Karólína Ágústsdóttir tók DNA-próf vildi hún helst vita hvaðan hún væri en fann í staðinn líffræðilega alsystur. Báðar eru þær ættleiddar frá Kína. Systir hennar býr í Bandaríkjunum og er fjórum árum eldri.

Mæðgurnar Kristín Valdemarsdóttir og Karólína Ágústsdóttir í Mannlega þættinum.

Mæðgurnar Kristín Valdemarsdóttir og Karólína Ágústsdóttir voru í Mannlega þættinum á Rás 1.

Karólína Ágústsdóttir, 15 ára, fann líffræðilega alsystur sína sem er 18 ára og býr í Bandaríkjunum eftir að hafa sent DNA-próf sitt í alþjóðlegan gagnabanka. Þær voru báðar ættleiddar frá Kína og vissu ekkert hvor af annarri áður en þær prófuðu hvor í sínu lagi að nýta sér slíka erfðafræðiþjónustu án þess að vita við hverju mætti búast.

Gígja Hólmgeirsdóttir og Gunnar Hansson ræddu við Karólínu og Kristínu Valdemarsdóttur móður hennar í Mannlega þættinum á Rás 1.

Hefur alltaf velt fyrir sér upprunanum

Karólína og systir hennar Matthildur eru báðar ættleiddar frá Kína, Matthildur er fædd árið 2004 en Karólína 2008. Fyrir tveimur árum ákváðu þær að taka DNA-prófið MyHeritage sem getur bæði sýnt hvaðan þú ert og ef skyldmenni hafa tekið sams konar próf.

„Við vorum kannski forvitnar að vita hvort það væri einhver þarna úti, maður er náttúrulega forvitinn um uppruna sinn,“ segir Kristín sem benti dætrum sínum á prófið.

„Ég hef alltaf pælt í því en ég var aldrei að búast við að það myndi gerast, að ég myndi finna eitthvað,“ segir Karólína.

Fékk tölvupóst í byrjun maí

Það eru nokkur fyrirtæki sem gera slík DNA-próf þar sem fólk sendir inn munnvatnssýni og fær niðurstöður sendar í pósti. Upplýsingarnar eru svo geymdar í gagnagrunni fyrirtækjanna.

Þegar þær tóku prófið fyrst fengust engar upplýsingar um skyldmenni. Kristín er í ýmsum Facebook-hópum fyrir ættleidd börn og foreldra og sá þar að hægt væri að setja niðurstöðurnar í alþjóðlegan gagnabanka sem öll fyrirtækin hafa aðgang að. Það hafi þær gert fyrir einu og hálfu ári.

„Við hlóðum þangað upp og það svo sem gerðist ekkert,“ segir Kristín. „Þangað til í byrjun maí, þá fékk ég tölvupóst.“

Líffræðilegar systur

Seint á maíkvöldi fékk Kristín póst frá ungri stúlku sem heitir Marin. Hún hafði einnig verið að leita að uppruna sínum og sá á gagnabankanum að milli hennar og Karólínu væru sterk tengsl.

„Ég fer beint inn á þennan gagnabanka en sé ekki nein tengsl, svo ég fór bara að sofa,“ segir Kristín. Daginn eftir hafi hún skoðað málið betur. Reikningur Marin hafi verið stilltur þannig að Kristín sá hana ekki til að byrja með.

„Ég var allan daginn í vinnunni, þá vann ég ekki neitt. Ég var bara að gúgla og skoða alls konar greinar og útskýringar,“ segir hún. „Og bara niðurstaðan er sú að hún er líffræðileg alsystir Karólínu.“

Samsett mynd. Karólína Ágústsdóttir og líffræðileg systir hennar Marin.

Systurnar Karólína (til vinstri) og Marin (til hægri).

Aðsend

Allur tilfinningaskalinn

Karólína segist ekki hafa búist við því að finna ættingja. Hún hafi aðallega viljað sjá hvaðan hún væri. Þetta hafi því komið henni skemmtilega á óvart og gladdi hana mjög. „Allar tilfinningarnar komu,“ segir hún.

Daginn sem Kristín fékk fregnirnar var Karólína í sundi. „Ég er með surprise fyrir þig þegar við komum heim,“ sagði hún við dóttur sína. „Síðan kom ég heim og var náttúrlega löngu búin að gleyma því,“ segir Karólína. Móðir hennar hafi kallað hana fram í stofu þar sem öll fjölskyldan sat.

„Þá sagðist hún hafa fundið systur mína.“

Eru jafn spennt og líst vel hvert á annað

Marin býr í Portland í Oregon. Hún er að verða 19 ára og var að klára gagnfræðaskólann, eða high school, og byrjar í háskólanámi í sálfræði í haust. „Þetta er ótrúlega flott stelpa,“ segir Kristín.

Þær hófu samskipti í gegnum Instagram. Samband þeirra systra fór hægt af stað en nú séu þær farnar að senda mikið sín á milli. „Mér líst bara mjög vel á hana, hún er mjög næs og svipuð,“ segir Karólína.

Á afmælisdegi Karólínu, þann 12. júní, áttu fjölskyldurnar sitt fyrsta myndsímtal. Karólína segist hafa verið fremur feimin og leyfði mömmu sinni að fara með flest orð því hún þorði ekki sjálf að tala.

„Það var bara alveg æðislegt, þau eru jafn spennt og við,“ segir Kristín um Marin og fjölskyldu hennar. Fjölskyldurnar séu mjög líkar, foreldrarnir á svipuðum aldri og eiga aðra 16 ára stelpu.

Ákveðinn systrasvipur sé með þeim og þá helst þegar þær brosa. Kristín segir að þær bregðist eins við aulabröndurum feðra sinna sem hafi verið gaman að sjá. Einnig eru þær báðar með mikið ofnæmi.

Ætla heimsækja Marin eftir ár

Kristín segir að flestir sem ættleiddir séu frá Kína taki DNA-prófið hjá fyrirtækinu 23andMe eins og Marin gerði. Það séu því mestar líkur á að finna ættingja í gegnum það próf en á Íslandi sé einungis í boði að taka MyHeritage.

„En sem betur fer settum við bæði prófin okkar í þennan alþjóðlega gagnabanka, annars hefðum ekki fundið hvor aðra,“ segir Kristín.

Þær vona að fleiri taki þátt í þessari erfðaefnissöfnun svo hægt sé að tengja sem flesta. „Maður verður að eiga miða til að vinna í lottóinu,“ segir Kristín.

Eftir að hafa fylgst með í alþjóðlegum Facebook-hópum fyrir ættleidd börn og foreldra segir hún ekki miklar líkur vera á að fólk finni hvert annað. Það sé meira um að kínverskir foreldrar setji upplýsingar í gagnabankana í von um að finna börnin sín. Það sé nefnilega mjög erfitt að tengja börn og foreldra í Kína nema í gegnum slík gagnasöfn. Karólína segist þó ekki hafa leitast eftir að finna foreldra sína.

Systir hennar, Matthildur, hefur engar upplýsingar fundið um ættingja en eftir því sem fleiri bæti við sýnum sínum aukast líkurnar að einn daginn finnist tenging.

Systurnar týndu eru farnar að eiga í miklum samskiptum og fjölskylda Karólínu stefnir á að heimsækja Marin til Oregon á 16 ára afmælisdaginn hennar að ári.

 

Rætt var við Karólínu Ágústsdóttur og Kristínu Valdemarsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á Rúv.is 

Sjá frétt á Rúv.is 


Svæði