RÚV - Leyfa nú ættleiðingu frá Tógó
Innanríkisráðuneytið hefur gefið út löggildingu fyrir félagið Íslenska ættleiðingu til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Tógó. Tógó er fyrsta samstarfsríki Íslands í Afríku á sviði ættleiðinga en bæði ríkin eiga aðild að Haag-samningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa.
Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu kemur fram að tógósk yfirvöld geri þær kröfur að samskipti ríkjanna fari fram milliliðalaust og það kallaði á breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög, sem nú hafa verið gerðar. Innanríkisráðuneytið mun því verða í samskiptum við yfirvöld í Tógó en Íslensk ættleiðing mun engu að síður annast allan undirbúning mála hér á landi vegna ættleiðinga þaðan.