RÚV - Umsóknirnar stoppa í upprunalandi barnanna
Ekkert par af sama kyni hefur ættleitt barn hér á landi, hvorki innan lands né erlendis frá, síðan lög sem heimila ættleiðingar samkynhneigðra tóku gildi árið 2006. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar.
Hjá Íslenskri ættleiðingu fengust þær upplýsingar að aðeins ein hjón af sama kyni hafi farið gegnum ferlið hér á landi. Umsóknin komist hinsvegar ekki lengra því til þessa heimili ekkert þeirra ríkja, sem Íslendingar ættleiði frá, ættleiðingar til samkynhneigðra.
Félagið hafi kannað hjá erlendum ættleiðingafélögum hvort þau þekktu til landa þar sem alþjóðlegar ættleiðingar til samkynhneigðra séu leyfilegar. Þau svör fengust að umsóknir samkynhneigðra para hafi til þessa ekki verið teknar til greina í löndum sem ættleitt er frá.
Íslensk ættleiðing segir að þó séu vísbendingar um að í nokkrum löndum sé að opnast á ættleiðingar til para af sama kyni innan þeirra.