RÚV - Vilja fleiri börn frá Rússlandi
Íslensk ættleiðing hefur beðið stjórnvöld að senda formlega beiðni til rússneskra yfirvalda um ættleiðingu á rússneskum börnum hingað til lands.
Ættleiðingum frá útlöndum hefur fækkað síðustu þrjú ár en þær náðu hámarki árið 2005 þegar 41 barn var ættleitt til landsins. Flest komu börnin frá Kína. Árið 2007 voru 17 börn ættleidd til landsins og í fyrra voru þau 13; öll frá Kína. Á heimasíðu Hagstofunnar kemur fram að fara þurfi allt aftur til 1998 til að finna færri ættleiðingar frá útlöndum en þá komu einungis 12 börn til landsins. Það sem af er þessu ári hafa 9 börn verið ættleidd hingað til lands; frá Kólumbíu, Indlandi og Kína. Fjögur börn til viðbótar eru væntanleg í lok ársins.
Íslensk ættleiðing hefur, eins og áður segir, farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að send verði beiðni til rússneskra yfirvalda um ættleiðingu á rússneskum börnum hingað til lands. Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar segir að á undarforum árum hafi 2 börn verið ættleidd frá Rússlandi. Við það hafi skapast dýrmæt þekking. Þetta gæti orðið til þess að ættleiðingum fjölgi. Nú séu fjölmargar íslenskar fjölskyldur hæfar til að ættleiða börn og þrái það. Úti í heimi bíði fjölmörg börn eftir ættleiðingu. 8,1% barna í heiminum séu yfirgefin og munaðarlaus.