Fréttir

VÍSIR - Segir lög um ættleiðingar samkynhneigðra ekki hafa náð að þjóna tilgangi sínum

„Þetta eru náttúrulega upplýsingar sem koma mér ekki á óvart og okkur sem höfum verið að rótast í þessu," segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78, um svar Ögmundar Jónassonarinnanríkisráðherra við fyrirspurn um ættleiðingar samkynhneigðra.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sendi fyrirspurnina, og í svari Ögmundar kom fram að ekkert íslenskt par af sama kyni hefur ættleitt barn frá því að Alþingi setti lög sem heimila slíkar ættleiðingar árið 2006.

„Það er gott að fá staðfestingu á að þetta sé svona. Þegar við vitum að lögin hafa ekki náð að þjóna tilgangi sínum þarf að bæta um betur og tryggja að þau komist í framkvæmd," segir Anna Pála, en bætir því við að svo það geti orðið að veruleika þurfi stjórnvöld að gera ættleiðingarsamning við ríki sem leyfa ættleiðingar samkynhneigðra.

Í svari Ögmundar segir að hann hafi ekki haft frumkvæði að því að kanna hjá öðrum ríkjum hvort að vilji sé fyrir því að koma á samkomulagi um frumættleiðingar á börnum til samkynhneigðra hér á landi, en óski löggilt ættleiðingafélög hér á landi eftir því, muni ráðherra veita liðsinni sitt við að koma slíku samstarfi á.

„Það er frábært að heyra Ögmund segja þetta. Hjá Íslenskri ættleiðingu hefur samkynhneigt par lengi beðið eftir því að eitthvað fari að gerast, en ég held að ástæðan fyrir því að þessi pör eru ekki fleiri sé einfaldlega sú að fólk sér ekki tilganginn í því að borga há umsýslugjöld, vitandi það að samningur sé ekki fyrir hendi. Það sem ég vonast til er að það verði hægt að gera sameiginlegt átak í þessu og það væri þá eitthvað sem stjórnvöld gætu með pólitískum vilja haft áhrif á. Svo er spurning hvort það sé ekki hægt að vinna þetta með Íslenskri ættleiðingu þannig að þessi lög frá 2006 fari nú að virka."

http://visir.is/segir-log-um-aettleidingar-samkynhneigdra-ekki-hafa--nad-ad-thjona-tilgangi-sinum/article/2013130329166


Svæði