Fréttir

Visir.is - Geta ekki ættleitt erlendis frá

nordicphoto/AFS
nordicphoto/AFS

INNLENT

KL 07:00, 31. MARS 2014
 

Ekkert samkynhneigt par á Íslandi ættleiddi barn erlendis frá á árunum 2008 til 2012. Þetta kemur fram í skriflegu svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanni Framsóknarflokks.

Á umræddu tímabili var 81 barn frumættleitt til landsins af 71 pari. 

Þau lönd sem helst er ættleitt frá eru Indland, Kína, Kólumbía, Tékkland og Tógó. 
Jóhanna María spurði hvort það hafi verið skoðað að gera samninga við lönd sem ekki er ættleitt frá sem stendur en leyfa ættleiðingar til samkynhneigðra.

Ráðuneytið segir að ættleiðingar milli landa fari fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingafélaga. Það sé mat ráðuneytisins að það sé hlutverk þeirra að hafa frumkvæði að því að afla nýrra sambanda við upprunaríki um ættleiðingar. 

Sérstaklega er tekið fram að ráðuneytið hafi þær upplýsingar frá Íslenskri ættleiðingu að það sé virkur samstarfshópur félagsins og Samtakanna "78 sem hafi unnið að því að kanna möguleika á ættleiðingum til samkynhneigðra. 

Ráðherra segist styðja slíkar umleitanir og telur farsælt að gera samninga við þau ríki sem leyfa ættleiðingar til samkynhneigðra.

Visir.is - Geta ekki ættleitt erlendis frá


Svæði