Fréttir

Ættleiðingum fækkar á Norðurlöndum að Íslandi undanskildu

Ættleiðingar til Norðurlandanna voru samtals 403 færri í fyrra en árið þar á undan, það er fækkun sem nemur tæpum 26%.

Ættleiðingum fækkar til allra Norðurlandanna að Íslandi einu undanskildu. Þróunin á Norðurlöndunum er sú sama og víðast hvar í Evrópu.

Fjöldi ættleiðinga til Finnlands stóð nánast í stað en hlutfallsleg fækkun þar nam eingöngu 1,5%. Fækkun til Danmerkur og Svíþjóðar nam 17 til 19% en áberandi mestur samdráttur í fjölda ættleiðinga er til Noregs.

Árið 2010 voru 343 börn ættleidd erlendis frá til Noregs en í fyrra voru þau einungis 133 og nemur munur á milli ára því 61%.

Það vekur því athygli að þó ættleiðingar til Íslands séu enn mjög fáar voru þær einni fleiri í fyrra en árið þar á undan.

Ættleiðingar til Íslands eru ennþá einungis um 60% af því sem þær urðu flestar um miðjan seinasta áratug en eru þó meira en tvöfalt fleiri en þegar þær voru fæstar á þessari öld árið 2006 þegar 8 börn voru ættleidd til landsins.

Skýringa á fækkun ættleiðinga til Norðurlandanna má rekja til áhrifa frá Haagsamningnum um ættleiðingar, alþjóðasamningi sem ætlað er að gæta að hagsmunum barna. Reglur sem fylgja samningnum eru strangar, skrifræði í kjölfar hans hefur aukist, það hægir á ættleiðingarferlinu og börnum sem hægt er að ættleiða fækkar og þau eru að jafnaði eldri en áður var.

Ástæður þess að ættleiðingum fækkar ekki til Íslands annað árið í röð eru m.a. að fækkun ættleiðinga kom fyrr fram á Íslandi en hinum Norðurlöndunum, sem varð til þess að ný vinnubrögð voru tekin upp hjá Íslenskri ættleiðingu fyrir nokkrum árum, það virðist vera að hafa þau áhrif að Íslensk ættleiðing stefnir upp úr öldudalnum þegar systurfélög okkar á Norðurlöndum eru að sigla niður í hann.


Svæði