Afmælisgjöf frá Foreldrafélagi ættleiddra barna
Foreldrafélag ættleiddra barna færði Íslenskri ættleiðingu veglega afmælisgjöf á afmælismálþingi félagsins. Formaður Foreldrafélagsins Elín Henriksen fylgdi gjöfinni úr hlaði með nokkrum orðum:
Komið þið sæl.
Það er okkur, í Foreldrafélagi ættleiddra barna, sönn ánægja að fá nokkrar mínútur í dagskrá þessarar glæsilegu 40 ára afmælisráðstefnu.
Foreldrafélag ættleiddra barna var stofnað árið 2006, og hlutverk og markmið félagsins var að að sinna fræðslustarfi um ættleiðingartengd málefni sem mikil eftirspurn var eftir auk þess að vera hagsmunafélag. Félagið stóð fyrir fjölda fyrirlestra og hélt meðal annars ráðstefnu þar sem færustu sérfræðingar erlendis héldu framsögu.
En hvatinn að stofnun félagsins var að hópur fólk fór að hittast og beita sér fyrir því að komið yrði á fót ættleiðingarstyrk til kjörforeldra til að koma til móts við þann kostnað sem skapast í ættleiðingarferlinu. Skrifaðar voru greinar í dagblöð, fundað með alþingismönnum auk fleiri aðgerða. Markmiðið náðist árið 2006 og í dag fá kjörforeldrar eingreiðslu að upphæð kr. 687.660 að uppfylltum skilyrðum.
Árið 2014 gaf félagið út bókina Máttur tengslanna, sem er íslensk þýðing á bókinni The Connected Child eftir Karyn Purvis og fleiri en bókin er sú fyrsta sem gefin hefur verið út á íslensku þar sem umfjöllunarefnið er góð ráð og árangursríkar leiðir við uppeldi barna sem alast upp í kjör- og fósturfjölskyldum. Auk þess lét félagið þýða bæklinginn Adopted Children in School, Information for Teachers, sem ber yfirskriftina Skólinn og ættleidd börn og hefur honum meðal annars verið dreift í skóla víða um land.
Ástæða veru okkar hér í dag, er að nú hefur stjórn félagsins ákveðið að leggja það niður og gefa þá fjármuni sem félagið á til Íslenskrar ættleiðingar. Fjármunirnir felast annars vegar í peningainnstæðu og hins vegar í upplagi af bókinni Máttur tengslanna, en við sem erum í forsvari fyrir foreldrafélagið teljum að bókunum sé best komið hjá Íslenskri ættleiðingu, sem meðal annars hefur verið að gefa hana á undirbúningsnámskeiðum sem félagið heldur.
Það er von okkar að Íslensk ættleiðing taki við sprotanum og haldi áfram útgáfu- og þýðingastarfsemi ættleiddum og foreldrum þeirra til góða.
Með eintaki af bókinni færir stjórn Foreldrafélags ættleiddra barna Íslenskri ættleiðingu að gjöf fjármuni að upphæð 1.000.000 kr. Það er von okkar að fjármunirnir verði nýttir til áframhaldandi útgáfu á ættleiðingartengdu efni á íslensku.
Elín Henriksen