Ávarp forseta Íslands á 40 ára afmælismálþingi Íslenskrar ættleiðingar
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heiðraði Íslenska ættleiðingu á afmælisráðstefnu félagsins og flutti stutt ávarp.
Það gladdi alla viðstadda að sjá hversu áhugasamur Guðni var um málaflokkinn en hann dvaldi lengi á málþinginu og tók glósur úr fyrirlestrunum, enda voru þeir mjög áhugaverðir, jafnvel fyrir forseta.
Ávarp forsetans er hér fyrir neðan:
Formaður og forystufólk Íslenskrar ættleiðingar, aðrir góðir gestir
Ég fagna því að ávarpa ykkur á þessu afmælismálþingi. Í fjóra áratugi hefur félagið ykkar sinnt ættleiðingum að utan, að mestu í sjálfboðastarfi með sjálfsaflafé. Þennan starfa ber að þakka.
Í fornum sögum okkar segir frá því að börn voru gjarnan tekin í fóstur ef áföll dundu yfir. Þannig ólst Ari fróði upp hjá Halli Þórarinssyni spaka í Haukadal eftir að Þorgils faðir hans drukknaði í Breiðafirði; í ofanálag lést afi hans Gellir á heimleið úr pílagrímsför til Rómar. Við vitum að Valgerður, móðir Ara, féll ekki frá í æsku hans en á þessum tímum var það ekki heillavænlegt ungum og efnilegum drengjum að alast upp hjá einstæðri móður. Sömuleiðis þekktist til forna að foreldrar, sem ekki varð barna auðið, ættleiddu barn, oftast son. Hann hlaut þá að lögum erfðaréttindi og skyldur, og ættleggurinn leið ekki undir lok.
Aldir liðu, áfram voru börn látin í fóstur og ættleidd. Sögur mætti auðvitað segja af mörgum fleirum en Ara fróða. Í upphafi síðustu aldar gengu ástfangin kona og karl í hjónaband á Íslandi, bæði af góðum ættum, stöndug og farsæl – að því slepptu að sambandið bar ekki þann ávöxt sem ætlast var til. Konan varð ekki þunguð, annars höfðu þau hjón allt til alls. Á öðrum stað gerðist það að ung stúlka varð ófrísk og eignaðist dóttur í lausaleik, eins og það var kallað. Þá voru góð ráð dýr, hún bláfátæk, virtist ekki vita með vissu hver faðirinn væri eða hann vildi ekki gangast við barninu. Ársgömul var stúlkan komin í fóstur hjá eldri systur móðurinnar en þar voru hagir litlu betri.
Brot þessarar sögu má lesa úr skýrslum og bréfum – heimildum sem urðu til vegna þess að hagur allra, mektarhjónanna, bágstöddu móðurinnar og saklauss barnsins, sýndist renna saman. „Kæra frú,“ skrifar móðirin þegar ættleiðing er ákveðin:
Ynnilegt þakklæti eiga þessar línur að færa yður fyrir það að þér ætlið að taka litlu stúlkuna af mér. Ég veit að Guð launar ykkur hjónunum fyrir það og ég óska til Guðs að hún verði ykkur til gleði og blessunar og veit að betri Foreldra getur hún ekki feingið, eftir sem ég hef heirt hvað þér væruð góðir. Það gleddi mig ef ég feingi að heyra hvernig ykkur líst á þá litlu. [Systir mín] segir mér að hún sé skemtileg. Ég get ekki sent ykkur Fæðingar attestið nú með þessari ferð. Nú að endingu bið ég Guð að gefa yður Gleði og Hamingju með þeirri litlu.
Með virðing og vinsemd.
Þegar þessi orð eru lesin um einni öld eftir að þau voru fest á blað er ekki laust við að hjartað fyllist bæði hamingju og trega. Ung stúlka fékk gott heimili og atlæti ástríkra foreldra, móðir hennar losnaði undan því oki að reyna að ala barn upp ein í hörðum heimi vanefna og misskiptingar. Um leið liggja söknuður og sorg milli línanna. Og hvers konar samfélag var það sem bjó ungri móður þessa afarkosti?
Ættleiðing er alvörumál. Þennan heim þekkið þið betur en ég. Nú gilda innlend lög og reglur um ættleiðingar, alþjóðasáttmálar og samningar. Ættleidd börn eiga sinn rétt og mörg þeirra langar til að vita um ætt sína og uppruna þegar fram líða stundir. Álitamál vakna um heim hinna ríku og fátæku. Já, þessi heimur er ekki fullkominn. Í hann fæðast enn börn sem mæður og feður geta ekki alið önn fyrir, börn sem verða munaðarlaus og eiga því í vændum örðuga æsku án lífsins gæða. En annars staðar er sem betur fer til fólk sem vill svo gjarnan veita þessum börnum von og framtíð, umhyggju og ást.
Það er þakkarvert. Ég ítreka árnaðaróskir á afmæli Íslenskrar ættleiðingar og óska félaginu velfarnaðar.
http://www.forseti.is/media/3393/2018_03_16_islensk_aettleiding.pdf