Fréttir

Ávörp á fjölskylduhátíð Íslenskrar Ættleiðingar

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson

Hér er hægt að lesa ávörp sem flutt voru á fjölskylduhátíð Íslenskrar Ættleiðingar. Ávörpin fluttu Klara Geirsdóttir fulltrúi skemmtinefndar, Ingibjörg Jónsdóttir formaður Íslenskrar Ættleiðingar og forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson en ávarp hans er að finna á heimasíðu forsetaembættisins.

Ávarp flutt af formanni Íslenskrar Ættleiðingar

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, forsetafrú, Dorrit Moussaieff, kæru vinir og þá sérstaklega þið krakkar. Mikið er gaman að sjá svona marga krakka hér í dag og vonandi koma enn fleiri á eftir.

Það er okkur mikill heiður að hafa forsetahjónin með okkur hér í dag – það sýnir hvaða hug þau bera til þess starfs sem við vinnum. Ég veit að ég tala fyrir munn okkar allra þegar ég segi að það sé okkur mikils virði.

Ég vil byrja á því fyrir hönd stjórnar Íslenskrar ættleiðingar að þakka skemmtinefndinni, eða skemmtilegu nefndinni sérstaklega fyrir þessa frábæru hugmynd, og allt það óeigingjarna starf sem hún hefur innt af hendi til þess að gera þessa hátíð að veruleika.

Þetta er í fyrsta skipti sem Íslensk ættleiðing stendur fyrir svona hátíð. Með henni viljum við ítreka mikilvægi þess að börnin okkar séu stolt af uppruna sínum Það er mikilvægt að þau séu stolt af því að hafa fæðst í Kína – að hafa fæðst á Indlandi eða í Rúmeníu svo eitthvað sé nefnt.

Í upprunanum liggja ræturnar og með því að halda þessa hátíð erum við að vökva ræturnar. Ég held að flestir séu sammála um mikilvægi þess að um leið og við gerum það sem við getum til að nýi jarðvegurinn sé frjósamur – þá eigum við að halda tengslum við upprunalandið. Við eigum að tala mikið um það og við eigum að tala vel um það.

Við verðum að vera meðvituð um þá ábyrgð sem við berum. Okkur hefur verið trúað fyrir þessum börnum. Það er ekkert sjálfgefið að vera trúað fyrir því að vera kjörforeldri.

Það er líka mikilvægt að við gleymum því aldrei hvað er númer eitt. Ættleiðing er alltaf á forsendum barnsins. Hún byggir á rétti barnsins til að eignast foreldra – ekki rétti okkar til að eignast barn. Það eru forréttindi fyrir okkur að njóta góðs af þessum rétti barnanna.

Í hvert skipti sem sem Íslenskri Ættleiðingu tekst að hafa milligöngu um ættleiðingu barns af erlendum uppruna verðum við ríkari. Við verðum ríkari sem einstaklingar. Við verðum ríkari sem fjölskyldur – en við verðum líka ríkari sem samfélag, sem þjóð – því ríkidæmið liggur ekki síst í margbreytileikanum.

Um leið og við ættleiðum barn af erlendum uppruna verðum við öðruvísi fjölskyldur. Um leið og okkur er trúa fyrir því að ala upp börnin okkar og skapa þeim þær aðstæður að þau geti skotið rótum í nýjum jarðvegi – þá fáum við það hlutverk í leiðinni að vera brú á milli menningarheima og á milli kynþátta. Við eigum að vera stolt af þessu hlutverki.

Þess vegna erum við hér. Ég veit að við eigum eftir að eiga hér góða stund saman.

 

Ávarp flutt af fulltrúa skemmtinefndar.

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson og forsetafrú Dorrit Moussaieff og aðrir hátíðargestir.
Fyrir hönd skemmtinefndar Í. Æ. býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin á fyrstu fjölskyldu og þjóðahátíð Íslenskrar Ætteiðingar.

Tilurð þessar hátíðar eru sú að í fyrrahaust vorum við í skemmtinefndinni að setja saman vetrardagskrána þegar upp kom sú hugmynd hvort ekki væri gaman að vera með árshátíð eða hálfgerða uppskeruhátíð þar sem saman kæmu börn og foreldrar frá sem flestum löndum sem félagsmenn Í Æ hefðu ættleitt frá. Þar myndu verða smá kynningar frá hverju landi og jafnvel einhverjar myndir af börnum stórum og smáum og þetta væri vettvangur fyrir alla að koma á, sýna sig og sjá aðra, líka þá sem nenntu ekki með í útileguna því þeir væru vaxnir uppúr því að hafa gaman af nammikallinum og kæmu ekki á jólaballið þar sem þeir væru búnir að átta sig á hvar jólasveinni ætti lögheimili.

Þarna væri kjörin vettvangur til að skapa jákvæða umræðu um löndin sem börnin okkar hefðu fæðst í og að ,,minna okkur á að í upphafi var það sama löngunin sem hvatti okkar af stað, löngunin til að eignast barn og við ættum að hjálpa börnunum okkar að vera stolt af því að hafa fæðst í fjarlægu landi.

Okkur fannst þetta svo góð hugmynd að við lögðum hana fyrir stjórn félagsins sem auðvitað kolféll fyrir henni.
Svo vatt hvað uppá annað og útkoman varð þessi, það er von okkar að allir hafi bæði gagn og gaman af herlegheitunum.

Við fengum nánast allstaðar jákvæð viðbrögð þegar við leituðum eftir aðstoð við framkvæmdina.

Blómaheildsalarnir Grænn markaður og Sama sem gáfu okkur blómin og það voru nemar á blómaskreytingabraut við Landbúnaðarháskóla Íslands sem komu ásamt kennara sínum og gerðu þessar glæsilegu skreytingar úr þeim.
Reykjavíkurborg lánar okkur þessa fínu aðstöðu endurgjaldslaust.

Verslanirnar Tamten og Salio lánuðu okkur kínverskan og indverskan fatnað.
Blómaval, Íslensk Ameríska, Íslandsbanki og Landsbanki styrktu okkur svo um munar, hvert á sinn hátt.

Og Nings útbjó fyrir okkur matarsmakk gegn vægu verði.
Kunnum við þessum aðilum ásamt öllum þeim félagsmönnum sem lögðu hönd á plóginn sem og þeim er lögðu til myndir og muni, okkar bestu þakkir fyrir.

Að lokum vil ég biðja veislustjórann okkar hann Guðmund Andra Thorsson að koma og taka við stjórninni.

Fjölskyldu og Þjóðahátíð Íslenskrar Ættleiðingar er hér með sett.
Gleðilega hátíð og góða skemmtun.


Svæði