Fréttir

Barna og unglingastarf

Frá haustmánuðum 2017 hefur verið starfrækt barna- og unglingastarf hjá Íslenskri ættleiðingu. Börnunum hefur verið skipt í tvo hópa eftir aldri, yngri hópur er fyrir börn 8-10 ára og eldri hópur er fyrir 11- 14 ára. Fyrir áramót voru 25 börn skráð, en eftir áramót voru þau 23. Það hefur verið mikil ánægja með starfið hjá börnunum, foreldrum og þeim aðilum sem koma að verkefninu. Við höfum meðal annars verið að fá skilaboð sem þessi:

„Ég vildi bara segja að mín stelpa var efins með að fara í fyrsta tímann, en hún kom heim alveg í skýjunum með hittinginn og er að telja niður dagana í næsta hitting“
„Mínum stelpum fannst mjög gaman“
„Mig langar bara að segja ykkur að barnið mitt var var í hópastarfinu hjá ykkur áðan. Hún var alsæl en reyndar pínu spæld yfir að þetta yrði ekki strax aftur í næstu viku. Hún bíður því spennt eftir næsta hitting“
„Stelpurnar okkar komu mjög glaðar heim“
„Mín stelpa er mjög spennt að byrja aftur, virkilega ánægð með þetta framtak hjá ÍÆ“
„Takk fyrir minn dreng, hann var ánægður og spurði hvenær hann mætti koma næst.“
„Alveg frábærlega vel staðið að þessum námskeiðum hjá ykkur, stelpan mín kemur alltaf voða glöð heim“
„Takk fyrir kvöldið, mín stelpa var mjög glöð og hamingjusöm þegar hún kom heim eftir daginn“
„Takk fyrir frábært framtak, mín var mjög ánægð með kvöldið“

Markmiðið með starfinu, er að krakkarnir nái að kynnast í gegnum leik og afþreyingu og nái að mynda tengsl og traust sín á milli. Með því að leggja þann grunn með þeim er hægt að styðja þau í að miðla hvers til annars, reynslu og hugleiðingum varðandi uppruna og ættleiðingu í gegnum samtöl, leik og verkefni. Þá er einnig unnið með sjálfsstyrkingu og sjálfsmynd í gegnum verkefni og afþreyingu sem höfðar til aldurs barnanna. Þeir starfsmenn sem hafa leitt starfið eru, Rut Sigurðardóttir félagsráðgjafi og starfsmaður Íslenskrar ættleiðingar og Kjartan Björn Elísson sem er ættleiddur frá Kólumbíu. Að auki hafa og munu aðrir fagaðilar koma inn í starfið, með mismunandi bakgrunn og þekkingu.

Hér má sjá myndir frá þremur viðburðum sem krakkanir hafa tekið þátt í, fyrst er það spilastund í Spilavinum, svo er það jógatími og að lokum tími í sjálfstyrkingu í gegnum myndlist.


Svæði