Barnaþing Umboðsmanns barna
Umboðsmaður barna hefur leitað til félagsins vegna tilnefningu barna á barnaþing Umboðsmanns sem haldið verður í Hörpu daganna 18.-19. nóvember næstkomandi.
Markmið barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem snerta þau. Þetta er í annað sinn sem barnaþing er haldið en fyrst var það haldið árið 2019 og er reynslan af því mjög góð og var upplifun barnanna sem tóku þátt afar jákvæð. Um 350 börn á aldrinum 11-15 ára fá boð um að sækja þingið en þau eru valin með slembivali barna af öllu landinu úr þjóðskrá.
Þingið verður sett eftir hádegi þann 18. nóvember með formlegri dagskrá en þann 19. nóvember verður dagskránni skipt í tvennt. Annars vegar verða umræður í þjóðfundarstíl með þátttöku barna og fullorðinna og hins vegar opin dagskrá með málstofum og fjölbreyttum viðburðum. Niðurstöður barnaþings verða kynntar ríkisstjórninni sem mikilvægt framlag til stefnumótunar um málefni barna.
Umboðsmaður vildi tryggja fjölbreytileika þátttakenda á þinginu með þeirri von að sjónarmið ólíkra hópa barna komi fram og því leitaði hann til Íslenskrar ættleiðingar til að tryggja að rödd ættleiddra barna myndi heyrast. Félaginu býðst að tilnefna 2-5 börn á aldrinum 11-15 ára og því leitum við til ykkar, kæru foreldrar.
Ef þú telur að barnið þitt væri góður fulltrúi er þér boðið að tilnefna það með því að senda póst fyrir 21. ágúst á isadopt@isadopt.is með nafni barnsins og aldri þess.
Þau börn sem verða tilnefnd af foreldrum hitta svo fulltrúa stjórnarinnar í ágúst til að stjórnin fái tækifæri til að glöggva sig aðeins á hópnum. Í framhaldinu mun stjórnin velja fulltrúanna og þau fá svo sent boðsbréf frá Umboðsmanni barna.