Breytingar á þjónustugjöldum
Gjaldskrá Íslenskrar ættleiðingar tók breytingum nú um áramótin. Með breyttum aðstæðum í málaflokknum hefur félagið verið nauðbeygt til að hækka endurgjald fyrir þjónustu félagsins en hægt er að skoða ítarlegar upplýsingar um þjónustugjöld á heimasíðunni.
Íslensk ættleiðing hefur lengi barist í bökkum og var eftir því tekið á árunum 2010-2011 en þá var félagið nokkuð áberandi í fjölmiðlum vegna fjárhagsstöðu þess. Íslensk ættleiðing átti í löngum og ströngum viðræðum við miðstjórnvaldið og féllst þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson á að viðskiptamódel ættleiðingarfélaga væri ekki í samræmi við inntak Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu um ættleiðingar milli landa, né íslenskra laga og reglna varðandi ættleiðingar, sem varð til þess að þjónustusamningur var gerður við ættleiðingarfélagið vegna þess endurgjalds sem kæmi frá ráðuneytinu fyrir þá þjónustu sem félagið á að veita. Samkvæmt fjárhagsáætlunum félagsins á þeim tíma þurfti 52 milljónir króna til að standa straum af þjónustu félagsins við umsækjendur um ættleiðingu, ættleidd börn og fjölskyldur þeirra. Fjárhæð þjónustusamningsins var hins vegar 34 milljónir króna á ársgrundvelli og samþykkti félagið þá upphæð sem fyrsta skref í bættri þjónustu vegna ættleiðingar og þjónustu eftir ættleiðingu.
Síðan þá hefur þjónustusamningur við félagið verið endurnýjaður nokkrum sinnum, en endurgjald vegna þjónustunnar ekki hækkað. Íslensk ættleiðing er rekin án hagnaðarsjónarmiða og lýtur eftirliti dómsmálaráðuneytisins.
Breyttar aðstæður í ættleiðingarmálaflokknum, með samdrætti í alþjóðlegum ættleiðingum síðastliðin ár og fækkun umsókna um forsamþykki auk lengri afgreiðslutíma umsókna um forsamþykki hefur þrengt verulega að fjárhag félagsins og hefur ráðuneytið þrýst á félagið að breyta gjaldskrá þess. Með þessari breytingu sem hefur verið kynnt ráðuneytinu hækka öll gjöld og einnig er nú sett gjald á þjónustu sem áður var veitt án endurgjalds. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki fallist á rök félagsins um hækkun endurgjalds vegna þeirrar þjónustu sem félagið veitir í krafti þjónustusamningsins og er félagið því nauðbeygt til að hækka gjaldskrá. Enn eru þó grunngjöld vegna ættleiðingar lægri en ættleiðingarstyrkur sem foreldrar eiga rétt á eftir ættleiðingu.