Fréttir

Breytingar á Íslandi vekja athygli

Æðstu stjórn Innanríkisráðuneytisins hefur verið boðið að koma á ársfund evrópusamtaka ættleiðingarfélaga, Euradopt,  til að kynna þær grundvallarbreytingar sem gerðar hafa verið á Íslandi í fjármögnun ættleiðingarfélasgins.
 
Eftir samtal Íslenskrar ættleiðingar við stjórnvöld árið 2012 lagði meirihluti Fjárlaganefndar til að endurgjald ríkisins til ættleiðingarfélagsins, vegna verkefna sem því er falið að vinna, yrðu ríflega þrefölduð.
 
Alþingi samþykkti þessa hækkun á endurgjaldinu og í nóvember 2013 skrifaði Innanríkisráðherra undir þjónustusamning við ættleiðingarfélagið.
 
Fjárlög seinasta árs og þjónustusamningurinn marka tímamót í sögu ættleiðinga og hafa vakið athygli erlendis því með þessu bætta fyrirkomulagi eru fjármögnun og gæði ættleiðingastarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga. Þetta nýja íslenska fyrirkomulag, sem mörg systurfélög okkar horfa til af aðdáun, er til þess fallið að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og kann því að verða öðrum leiðarljós í breytingaferli sem víða stendur fyrir dyrum.
 
Nú hefur stjórn Euradopt óskað eftir því að fulltrúar Innanríkisráðuneytisins kynni íslenska fyrirkomulagið, eins og þjónustusamningurinn er kallaður af systurfélögum okkar erlendis, á ársfundi samtakanna í Stokkhólmi í vor. Það er sérlega ánægjulegt ef þróunarstarf okkar hér heima getur orðið öðrum ríkjum fyrirmynd.
 
Sá böggull fylgir þó skammrifi að þrengt hefur mjög að Innanríkisráðuneytinu vegna niðurskurðarkröfu á stjórnsýsluna og mannafli þar því af mjög skornum skammti. Enn sem komið er hefur ráðuneytið ekki þegið boðið um að koma á fundinn en allir bíða vongóðir.

Svæði