Fréttir

Breytingar á yfirferð heilusfarsupplýsinga frá upprunaríki

Hinn 22. maí sl. barst formlegt erindi til stjórnar ÍÆ frá Gesti Pálssyni sérfræðingi í barnalækningum á Barnaspítala Hringsins, Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Í erindi sínu til stjórnar tilkynnti Gestur Pálsson að hann myndi ekki starfa áfram fyrir ættleiðingarfélagið sem hefur m.a. verið fólgið í að veita ráðgjöf og skoða upplýsingar um börn sem áætlað er að ættleiða til landsins. Gestur Pálsson hefur undanfarin 35 ár aðstoðað foreldra þeirra barna sem ættleidd hafa verið erlendis frá. Hefur Gestur tekið á móti hátt í 600 ættleiddum börnum og átti á sínum tíma frumkvæðið að því að börn ættleidd erlendis frá yrðu skoðuð á Barnaspítalanum strax við heimkomu og fengju aðstoð og meðferðarúrræði þar, sem mæltist vel fyrir.

Allir sem ætttleitt hafa barn til landsins skilja vel hve óeigingjarnt og mikið starf Gestur Pálsson hefur unnið fyrir félagið, félagsmenn og þennan stóra hóp barna. Það starf verður seint fullþakkað.​

​Eftir fundi innan stjórnar ÍÆ var Innanríkisráðuneytinu tilkynnt um þá stöðu sem upp er komin. Í tilkynningu ÍÆ um málið til Innanríkisráðuneytisins ​hinn 11. júní ​sagði meðal annars:
 
“Ljóst er að tilkynningu Gests Pálssonar ber að taka alvarlega enda mun skortur á stuðningi og þeirri sérfræðiþjónustu sem Gestur hefur séð um síðustu ár hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á meðferð ættleiðingarmála hér á landi.”

​“Skyldur Íslenskrar ættleiðingar gagnvart ættleiddum börnum og væntanlegum kjörforeldrum samkvæmt reglugerðum og þjónustusamningi sem í gildi er á milli ættleiðingarfélagsins og Innanríkisráðuneytisins, eru umtalsverðar. Ábyrgð íslenska ríkisins í því máli sem nú er uppi, er einnig mikil. Það er því nauðsynlegt að bregðast skjótt við. Íslensk ættleiðing fyrir hönd félagsmanna sinna og umsækjenda, gerir kröfu um að Innanríkisráðuneytið taki tilkynningu þessa strax til meðferðar og í samráði við Barnaspítala Hringsins og aðkomu sérfræðinga, eigi frumkvæðið að því finna lausn á þeim vanda sem nú er uppi um meðferð ættleiðingarmála á Íslandi.“

Hinn​ 18. ágúst áttu fulltrúar ÍÆ; formaður, framkvæmdastjóri og lögmaður félagsins, fund með fulltrúum ​Innanríkisráðuneytisins, ​Velferðarráðuneytisins og forstjóra Landspítalans um stöðu ættleiðingarmála og yfirlestur læknaskýrslna hjá börnum áður en þau eru ættleidd hingað til lands.

Aðilar fundarins voru sammála um að við brotthvarf Gests Pálssonar þyrfti að koma meðferð ættleiðingarmála hvað læknaskýrslur varðaði í formlegan farveg. Fulltrúi ráðuneytis velferðarmála óskaði eftir því að ÍÆ ynni að þarfagreiningu á meðferð ættleiðingarmála og að sú greining yrði unnin í framhaldinu með fagaðilum og sérfræðingum á sviði heilbrigðismála. Fulltrúi​ ráðuneytis innanríkismála lagði svo til að í kjölfarið yrðu lögð drög að gerð þjónustusamnings á milli ÍÆ ​og Barnaspítala Hringsins.

Ljóst er​, þrátt fyrir þessa stöðu sem nú er uppi,​ að félagið mun hafa einhver ráð með að fá lækna til að yfirfara heilsufarsupplýsingar frá upprunalöndum um væntanleg kjörbörn á meðan leitað er varanlegra lausna í samstarfi við ráðuneytin og Landspítala.
​Þá mun ​Landsp​í​talinn ​jafnframt sinna móttök​u ​þeirra barna sem koma til landsins, í samræmi við reglugerð, eins og ​gert hefur verið.


Svæði