DV - „Ég myndi fórna öllu til þess að eiga barn akkúrat núna“
„Ég myndi fórna öllu til þess að eiga barn akkúrat núna“ Á ættleiðingalista frá Tékklandi og bíða eftir símtali - Fjölmargar erfiðar glasa- og tæknifrjóvganir sem ekki gengu upp - vandar Art Medica ekki kveðjurnar
Björn Þorfinnsson bjornth@dv.is
„Við erum komin á lista yfir ættleiðingar frá Tékklandi eftir mikla skriffinnsku. Ferlið tók um ár og við eigum von á símtali núna á eftir eða eftir 5 ár. Mér gæti ekki verið meira sama svona nokkurn veginn, ég verð trúlega meira tilbúinn en flestir þegar kallið kemur. Ég myndi fórna öllu til þess að eiga barn akkúrat núna, segir Steinn Stefánsson sem skrifaði pistil á Facebook-síðu sína sem hefur verið deilt víða síðasta sólarhringinn.
Í pistlinum fjallar Steinn um reynslu sína og eiginkonu sinnar, Selmu Hafsteinsdóttur, en þau hafa reynt að eignast barn lengi án árangurs. Þau gengu í gegnum fjölda tækni- og glasafrjóvgana þar til þau gátu ekki hugsað sér fleiri slíkar meðferðir og hófu ættleiðingaferli.
Steinn segist hafa hugsað það lengi að skrifa um þessa erfiðu reynslu en svo hafi hann tekið sig til nýverið og byrjað að hamra á lyklaborðið. „Kveikjan varð eiginlega þegar stúlka frá Akureyri tjáði sig um verðhækkanir Art Medica og hversu ósátt hún var við þjónustuna. Ég get tekið undir hvert orð,“ segir Steinn sem fer hörðum orðum um Art Medica sem er sér eitt um þessa þjónustu hérlendis.
Sá loks aftur konuna sem hann hafði gifst
Hann segir að árið 2013 hafi meira og minna farið í meðferðir hjá Art Medica og að mest hafi mætt á eiginkonu sinni. „Ég þurfti bara að rúnka mér í bolla og stóð mig vel í því (hlær) en mest mæddi á konunni minni. Hún fór í gegnum fjölmargar hormónameðferðir sem snúast um það að hún er látin fara í gegnum breytingaskeiðið og hætta á blæðingum og svo er kerfinu komið aftur af stað. Þetta er það erfiðasta sem við höfum gengið í gegnum saman,“ segir Steinn. Þau hjónin hafi margoft fengið jákvæð þungunarpróf alltaf hafi eitthvað komið uppá snemma í ferlinu. Steinn segir að hormónameðferðirnar hafi farið afar illa í Selmu. „Hún fyrirgefur mér örugglega en hún varð alveg óð og upplifði mikla vanlíðan. Eftir að við ákváðum að hætta í þessum meðferðum og hormónarnir fóru úr kerfinu þá sá ég aftur konuna sem ég hafði gifst. Hún hafði verið týnd allt árið 2013,“ segir Steinn.
Heill dagur fór í að bölva Art Medica
Í kjölfarið hafi þau farið að ræða ættleiðingu og skráð sig á námskeið hérlendis. „Námskeiðið snérist mest um hvernig á að ættleiða en við öll þau pörin vorum samt sammála um að þetta væri eiginlega meira námskeið fyrir þau sem þyrftu að öskra og bölva Art Medica. Heill dagur fór meira að segja í það af þriggja daga námskeiði. Allir voru sammála um að þetta væri peningaplokkandi, mannskemmandi, afsakandi og out of fucking date fyrirtæki,“ segir Steinn og hneykslast á því að fyrirtækið rukki rúmlega 400 þúsund fyrir meðferðir sínar en láti fólk svo borga sérstaklega 1.800 kr. fyrir blóðprufur.
Þetta á ekki að vera tabú
„Ef að einhver pör eru í vandræðum þá má fólk hafa í samband við mig og Selmu og ræða málin. Það eru um 1/3 hluti fólks á barneignaaldri sem er í vandræðum með að eignast börn en mér skilst að fólk sé talið glíma við erfiðleika ef að það stundar kynlíf án getnaðarvarna í sex mánuði án þess að þungun eigi sér stað. Það væru forréttindi að geta leiðbeint einhverjum sem er í vandræðum. Þetta á ekki að vera tabú,“ segir Steinn.
Pistil Steins er í heild sinni hér fyrir neðan. Óhætt er að segja að allt sé látið flakka:
„Ég myndi fórna öllu til þess að eiga barn akkúrat núna“