Fréttir

Dv.is - Pála er einhleyp og ættleiðir

Pála Kristjánsdóttir Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Pála Kristjánsdóttir Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mátti bara ættleiða veikt barn - Sækir Kristján Frey til Kína í febrúar

Ragnheiður Eiríksdóttir 
ragga@dv.is
06:00 › 13. janúar 2015
 
 Pála Kristjánsdóttir, sýningarstjóri hjá Borgarleikhúsinu, er 41 árs, einhleyp og býr í Reykjavík. Hún er nýorðin mamma, því 2. janúar síðastliðinn var ættleiðing hennar á Kristjáni Frey, tæplega tveggja ára kínverskum snáða, endanlega samþykkt.

Má bara ættleiða veikt barn

Pálu hafði lengi dreymt um að verða mamma og síðustu sex ár hefur hún gengið í gegnum ýmislegt til að láta þann draum verða að veruleika: „Mig hefur lengi langað til að ættleiða barn, frá því ég var pínulítil. Þegar ég var 34 ára var lokað fyrir ættleiðingar einhleypra, og ári síðar var opnað fyrir tæknifrjóvgun einhleypra. 
Það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég reyndi það fyrst, ef ég hefði getað ættleitt strax hefði ég eflaust gert það. Þar sem ég er einhleyp má ég bara ættleiða veikt barn, þannig eru reglurnar í Kína – það eru margir hlutir í þessu sem ég skil ekki alveg – ég hef ekki einu sinni leyft mér að spá í þetta því ég verð svo pirruð – nú vil ég halda jákvæðum fókus og einbeita mér að því sem er að gerast hjá mér.“

Skilinn eftir fyrir utan sjúkrahús
Kristján Freyr er tæplega tveggja ára. Reyndar veit enginn hve gamall hann er nákvæmlega, þar sem hann fannst fyrir utan sjúkrahús þar sem hann hafði verið skilinn eftir. Kristján Freyr er kraftmikill strákur sem hefur gaman af boltaleikjum og elskar að láta taka af sér myndir. Hann bíður þess núna að mamma hans komi og sæki hann til Kína.

Fyrir Pálu hefur dagsetningin 2. janúar sérstaka merkingu því einmitt þann dag fyrir tveimur árum fékk hún að vita að síðasta tilraun hennar í glasafrjóvgun hefði ekki borið árangur. Fljótlega eftir það hóf hún umsóknarferli um ættleiðingu: „Þann 10. desember fannst svo Kristján Freyr á lista sem kínversk yfirvöld senda út á tveggja til þriggja vikna fresti. Ég mætti á skrifstofuna hjá Íslenskri ættleiðingu og fékk pappírana hans í hendurnar. Þetta er í raun bara skýrsla sem segir til um heilsufar barnsins og hvort hann hafi einhverjar sérþarfir. Þarna voru komnar myndir af honum en ég þorði ekki að skoða þær strax.“

Listar um fæðingargalla erfiðir
Þegar tilvonandi ættleiðingarforeldrar fá í hendur „tilboð“ um barn til ættleiðingar er vaninn hér á landi að barnalæknir skoði heilsufarsupplýsingarnar sem liggja fyrir. Í ættleiðingarferlinu þurfa væntanlegir foreldrar einnig að fylla út mjög nákvæma lista um það hvers konar barn þeir geta hugsað sér að ættleiða og hvaða fæðingargallar séu ásættanlegir að þeirra mati. 

Þetta fannst Pálu mjög erfitt: „Ég grét mjög mikið því ég þurfti að haka í já eða nei á margra blaðsíðna lista með atriðum um það hvernig barn ég gæti hugsað mér að ættleiða og hvað mætti vera að. Ég mátti ekki haka bara við það sem ég gat hugsað mér, heldur þurfti ég líka að skilgreina hvað ég gat ekki hugsað mér, það var mjög sárt og skrýtið. Samvaxnir fingur, albínói, vantar útlim, listinn er ótrúlega nákvæmur. Svo fór ég að sjá fyrir mér börnin og velta fyrir mér af hverju ég sagði nei við hinu og þessu. Þetta er erfið sjálfsskoðun.“

Litlir stákar með sérþarfir
Yfirleitt hafa litlu kínversku strákarnir einhverjar sérþarfir og oft mælir læknirinn með því að kallað sé eftir nánari upplýsingum eða myndum til að hægt sé að meta ástand barnsins sem best. Gestur Pálsson barnalæknir hefur haft eftirlit með heilsufari ættleiddra barna í áratugi og Pála segir hann skipa sérstakan sess í hjörtum ættleiðingarforeldra. Hún ákvað snemma í ferlinu að treysta Gesti til að meta hvort ættleiðing væri æskileg þegar hún fengi tilboð. Kristján Freyr reyndist vera með vatnshöfuð: „Í raun kemur svo bara í ljós hvernig það fer. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu því samkvæmt upplýsingunum hefur hann þroskast eðlilega og er fjörugur og hress strákur. Á myndum er hann í laginu eins og venjulegt íslenskt barn, þau eru svo höfuðstór,“ segir Pála og brosir hlýlega. 

En hvað veit hún meira um Kristján litla? „Hann fannst þann 24. april fyrir utan sjúkrahús í borginni Hengyang í Hunan-héraði í Suður-Kína. Auðvitað er ekki hægt að vita hvers vegna hann var skilinn eftir en ég er samt glöð að það var spítali en ekki einhvers staðar þar sem hefði verið erfiðara að finna hann. Það verður örugglega auðveldara þegar ég segi honum frá upprunanum seinna. Þá get ég sagt að mamma hans hafi viljað að hann fyndist og fengi hjálp, henni hafi ekki verið sama um hann. Líklega hefur hún ekki haft efni á lækniskostnaði, maður veit ekki ástæðuna. Það er bannað að gefa börn frá sér í Kína, og þess vegna mjög erfitt að finna kynforeldra kínverskra barna og engar skýrslur til fyrir þau börn sem eru ættleidd til annarra landa.“

Íslensk ættleiðing
Milliganga um allar ættleiðingar til Íslands
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar að utan. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið fyrir 35 árum og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna. Fyrir tilstuðlan félagsins hafa ríflega sex hundruð munaðarlaus börn eignast fjölskyldu á Íslandi.

Grátið af gleði við eldhúsborðið
Kristinn hjá Íslenskri ættleiðingu hringdi í Pálu á gamlárskvöld og sagði henni að njóta og reyna að hafa ekki svona miklar áhyggjur þar sem það hefði aldrei komið nei frá Kína og það gæti tekið nokkrar vikur að fá já-ið. Hann bauðst strax til að senda henni myndir, sem hún þáði með semingi. Hún var ennþá hrædd um að eitthvað gæti farið úrskeiðis. „Ég var í gamlársboði með systur minni og foreldrum og sat með fjölskyldunni inni í eldhúsi þegar ég opnaði póstinn frá Kristni. Við fórum öll að gráta, það var svo yndislegt að sjá hann.“ Eftir þetta hafa hlutirnir gerst hratt. 

Pála fer til Kína nú í lok mánaðarins og fær Kristján Frey í fangið 2. febrúar, hún er búin að kaupa flugmiðann og systir hennar og mágur ætla með. Það er vel við hæfi því Sigrún, systir Pálu, er ljósmóðir: „Þegar ég byrjaði að spá í að verða mamma sagðist Sigrún alltaf ætla að taka á móti barninu mínu. Ég man að ég svaraði því oft þannig að hún fengi að koma með mér að sækja barnið sem ég mundi ættleiða.“ Nú er draumurinn að verða að veruleika og í febrúar byrjar Pála í fæðingarorlofi sem nýbökuð móðir.


Svæði