Fréttir

Erum við ennþá full af fordómum?

Hörður Svavarsson
Hörður Svavarsson

Þann 16. október var haldið málþing Íslenskrar ættleiðingar í safnaðarheimili Seljakirkju. Meðal dagskrárliða var ávarp stjórnarformanns félagsins. Ávarpið er birt hér í styttri útgáfu og að nokkru endurskrifað fyrir ritmál.

Þeir tímar sem við lifum núna hafa einkennst af uppgjöri. Það á sér stað nokkur uppstokkun í samfélaginu og það er mikið púður lagt í að rýna í liðna atburði og gjarnan fylgja fordæmingar með í kjölfarinu. Þetta á ekki bara við um atburði í viðskiptalífinu og þá kollsteypu sem gengið hefur yfir í stjórnmálum og fjármálaheimi. Endurskoðun á sér víða stað á má þar t.d. nefna barnaverndarmál þar sem hver stofnunin á fætur annarri sem starfaði fyrir áratugum er rýnd og gagnrýnd en minna lagt upp úr að setja reynsluna sem af hlýst í samhengi við það sem verið er að praktisera í dag.

Mér finnst ekki úr vegi að vettvangur ættleiðinga sé skoðaður undir samskonar ljóskeri og nú er víða veifað og ég held að það sé tilvalið að bregða örlitlu ljósi á þann jarðveg sem félagið okkar, Íslensk ættleiðing, er vaxið úr.

Fimmtándi janúar er merkileg dagsetning fyrir margra hluta sakir. Fimmtánda janúar 1978 var félagið Íslensk ættleiðing stofnað á fundi í Norræna húsinu. Það er nákvæmlega, upp á dag, fimmtán árum eftir að Kvenréttindafélag Íslands hélt sérstakan fund um ættleiðingar.

Þriðjudaginn fimmtánda Janúar 1963 flutti Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari erindi um ættleiðingar á fundi Kvenréttindafélags Íslands.
Að erindi loknu urðu miklar umræður... ...og allar ræðukonur voru á einu máli um að það, að draga bæri mjög úr ættleiðingum.

Í lok fundar var samþykkt ályktun sem greint var frá í fjölmiðlum:
Fundur Kvenréttidafélags Íslands telur ættleiðingar varhugaverðar af siðferðilegum, ættfræðilegum og félagslegum ástæðum. Fundurinn hvetur því löggjafann og allan almenning til að vinna gegn ættleiðingum...

Um áratug síðar hafa málin þróast þannig að til stendur að ættleiða börn til landsins frá Asíu. Af því tilefni er skrifuð blaðagrein með hastarlegum andmælum.

Svo er að sjá, sem ekki verði aftur snúið á þeirri braut, að til komi, að íslenzk hjón taki upp á að ættleiða börn af ýmsum þjóðflokkum í -mannúðarskyni-, sem í raun og veru mætti öllu fremur færa undir eindæma fákænsku og þekkingarleysi. Hafa nefndir þær, sem um málið fjalla ekki talið ástæðu til að amast við þessu og nú þegar er a.m.k. eitt barn frá Kóreu á leiðinni hingað og nokkur önnur munu bíða fars og endanlegra pappíra. Verður vart annað sagt um þessa íslendinga, en að þeir eru þá kjarkmestir þegar þeir vita minnst um hættuna, sem við er að eiga.

Íslendingar, þola þvílíkan innflutning alls ekki og get því hæglega liðið undir lok eða á stuttum tíma orðið að kynblendingsskríl sem allsstaðar verður óvelkominn.
Nú er meiningin eftir því sem best verur séð að flytja hingað hreinræktaða Asíubúa, fólk sem ekki aðeins hugsar allt öðruvísi en norrænir menn, heldur býr yfir algjörlega öðru eðli. Það verður gaman að sjá hvernig íslenskum almenningi verður við þegar þetta fólk vex upp.

Nú kann glöggur lesandi að spyrja. Er þetta ekki bara ein blaðagrein rituð af einhverjum öfgamanni? Og svarið er jú - þetta er ein ritstjórnargrein, rituð á forsíðu á blaði sem kom út í fjölmörg ár og seldist ágætlega á þessum tíma. En við getum líka skoðað hvernig virtari einstaklingar í þjóðfélaginu tjáðu sig um þessi mál.

Aðalfréttin á forsíðu Vísis snemma á áttunda áratugnum er skrifuð undir þessari fyrirsögn:
Sótt um leyfi til ættleiðingar fjögurra Asíubarna, - fyrstu íslensku tilfellin, -Dómsmálaráðuneytið hefur veitt vilyrði.
Svo er haft efir Baldri Möller ráðuneytisstjóra í Dómsmálaráðuneytinu; að barnaverndarnefndir hefðu haft málin til umfjöllunar um nokkurt skeið, þar sem hér er um að ræða börn af öðrum kynstofni en hinum Norræna.

Síðar segir; Barnaverndarnefnd telur sig ekki þess umkomna að hafna þessum einkaskoðunum fólks í þessu efni, og vill því ekki mæla gegn því að þessi leyfi verði veitt.

====

En menn eru sem betur fer hættir að skrifa af svona fordómum í blöð í dag. Kannski vegna þess að viðhorfin hafa breyst, kannski vegna þess að tíðarandinn veitir ekki svigrúm fyrir svona skrif. Og kannski skiptir engu máli hvað menn skrifa, kannski skiptir öllu máli hvað menn gera.

Það er því ekki úr vegi að velta fyrir sér hve langt við erum komin á leið 32 árum eftir að ættleiðingarfélagið íslenska var stofnað.

Við erum í þeim sporum að íslenska ríkið hefur skrifað upp á alþjóðlega samninga þess efnis að standa skuli vel að verki í alþjóðlegum ættleiðingum og hefur viðurkennt að fyrir yfirgefið og munaðarlaust barn erlendis er ættleiðing úr landi betri kostur heldur en að barnið alist upp á stofnun innanlands.

Við erum þar stödd að ríkið hefur viðurkennt mikilvægi ættleiðinga í orði og skrifað undir samninga um að standa vel að verki en þess sér ekki merki í framkvæmdinni.

Stjórnsýslan öll er bágborin. Í ráðuneyti dómsmála- og mannréttinda sinnir einn fulltrúi málaflokknum, þessi fulltrúi er í hlutastarfi og sinnir átta málaflokkum öðrum. Einhverju sinni reiknuðum við það út að hugsanlega gæfust 18 mínútur á dag í ráðuneytinu til að sinna ættleiðingarmálaflokknum. Þetta hefur auðvitað þær afleiðingar að mál þokast ekki neitt.

Ég get nefnt dæmi um erindi sem hjón í félaginu sendu til ráðuneytisins í júni 2009 – í fyrra – í september á þessu ári barst svarbréf þar sem segir að vonandi verði hægt að afgreiða erindi þeirra skömmu fyrir árslok 2010. Þetta er auðvitað sérstaklega alvarlegt því tíminn vinnur gegn umsækjendum um ættleiðingu.

Þegar við kvörtum með þessum hætti er vert að hafa í huga að munaðarlausum og yfirgefnum börnum í heiminum er ekki a fækka. Þau er fjölmörg og nú sjáum við að biðlistar á öðrum norðurlöndum styttast en þeir lengjast hjá okkur.

Við erum að reyna að koma á samskiptum við Rússland. Þar er talið að 700 þúsund börn séu á stofnunum og Rússland er stórt ættleiðingarland. Sjálfboðaliðar Í.Æ. hafa lagt á sig mikla vinnu til að koma á þessu sambandi og Utanríkisráðuneytið hefur reynst drjúgur bakhjarl. Svo berast mikilvæg gögn frá Rúslandi til Dómsmálaráðuneytisins og þar liggja þau ósnert í fjóra mánuði af því það var ekki mannafli til að senda þau til skjalaþýðanda.

Þegar félagið okkar er borið saman við systurfélög á Norðurlöndum komumst við að því að við ættum að hafa fjóra starfsmenn til að geta staðið sómasamlega að verki. Bolmagn félagsins, sem samkvæmt reglugerð og löggildingu sinnir fjölmörgum verkefnum fyrir ríkisvaldið, er svo takmarkað að einungis einn starfsmaður hefur verið að störfum að undanförnu.

Á sama tíma og fjárframlag til félagsins úr ríkissjóði rýrnar um 30% á föstu verðlagi á þremur árum og er einungis 9,5 milljónir, þá er varið upphæð sem samsvara fimm milljónir á hvern íbúa í þorpi úti á landi svo hægt sé að grafa göng yfir i næsta þorp.

Fyrir fjórum árum voru samþykkt lög um ættleiðingarstyrki. Þeir áttu að taka mið af upphæð styrkja á hinum norðurlöndunum. Einungis fjórum árum síðar hafa styrkirnir rýrnað svo mikið að þeir nema nú einungis 45% af meðaltali styrkja á hinum Norðurlöndunum og eru einungis þriðjungurinn af hæstu styrkupphæðinni á hinum norðurlöndunum, sem er hjá litlu frændum okkar í Færeyjum.

Á sama tíma og ættleiðingarstyrkir rýrna hafa fjörtíu milljónum sem úthlutað var af Alþingi til Vinnumálastofnunar vegna ættleiðingastyrkja verið varið í eitthvað annað. Ég veit ekki í hvað þær fóru, en þessar fjörtíu milljónir létu a.m.k. ekki sjá sig í ættleiðingarmálum.

Og eigum við að nefna eftirfylgniskýrslur til erlendra ættleiðingaryfrvalda. Sem við höfum lofað að vinna vel, til að skapa traust og tryggja öryggi og vellíðan hinna ættleiddu barna. Við fáum ekki krónu í þetta verkefni og það er ólíðandi hvernig staðið hefur verið að verki fram að þessu.

Og eigum við að nefna PAS - þjónustu eftir ættleiðingu, - sem ríkisvaldið hefur lofað að sinna. Ríkið setur ekki krónu í það, sem er auðvitað til skammar án þess að farið sé í samanburð við passtarf á hinum norðurlöndunum.

Þegar horft er til þess að fjölmörg börn í heiminum eiga ekki fjölskyldu og þær fjármunastærðir sem verja þarf í málaflokkinn eru svo litlar að þær skipta engu máli í ríkisrekstrinum, þá er eðlilegt að spyrja hvort íslensk stjórnvöld tími ekki að standa vel að ættleiðingum.

Og þegar sagt er við erindreka ættleiðingarfélagsins innan dyra í ráðuneytinu að það sé erfitt að vinna í þessum málaflokki því auðvitað sé best að engar ættleiðingar milli landa fari fram. Þá er eðlilegt að spyrja sig hvort við séum ennþá full af fordómum.

Ég veit ekki alveg hvað við eigum að gera – en eitt er víst að við þurfum öll að legjast á eitt til að breyta þeim viðhorfum sem kristallast í framvæmd sem hér hefur verið tíunduð. Við þurfum a fá samfélagið með okkur.

Hvernig gerum við það?

Ég veit að mörg okkar hugsa stundum um það hvað hefði orðið um börnin okkar ef við hefðum ekki ættleitt þau. Ég hugsa stundum þannig og ég skelfist það sem ég hugsa um - og ég skelfist þau örlög sem bíða allt of margra barna í heiminum.

En jafnframt þessum hugsunum geri ég mér betur grein fyrir hversu dýrmætt það er sem ég hef og hversu mikilvægt það er að greina öðrum frá því – og hversu mikilvægt það er að fræða þá sem næst mér standa. Ég trúi því að ef við deilum reynslu okkar, hvert og eitt, getum við haft gríðarleg áhrif. Það er vegna þess að hugmyndir ferðast stundum eins og faraldur. Malcom Gladvell hefur lýst þessu vel i bók sinni The Tipping Point.

...Þetta er þannig að hugmyndir og hegðun og skilaboð og afurðir ferðast stundum eins og faraldur eða farsótt sem brýst út. Þær eru félagslegur faraldur... Hugsaðu eitt andartak um faraldur mislinga í leikskóladeild. Eitt barn ber vírusinn inn og hann dreifist til allra hinna barnanna á nokkrum dögum. Og eftir viku eða svo deyr farsóttin út og ekkert barnanna mun nokkru sinni fá mislinga aftur. Þetta er dæmigerð framganga farsóttar. Þær breiðast út og deyja út með hraði og jafnvel örlitlar breytingar – eins og eitt barn með vírus – getur komið þeim af stað. Mín afstaða er að það sé oft með þessum hætti sem breytingar eiga sér stað í öðrum hlutum tilverunnar. Hlutir geta gerst skyndilega og litlar breytingar geta skipt mjög miklu... Við gerum gjarna ráð fyrir að breytingar í dagsins önn séu hægfara og það sé greinilegt samhengi milli orsaka og afleiðinga. En þegar það gerist ekki – þegar glæpum fækkar stórlega í New York eða þega kvikmynd sem framleidd er fyrir smáaura veltir milljörðum - þá verðum við hissa. Ég segi, ekki vera hissa. Það er svona sem félagslegur faraldur virkar...

Mér finnst mikið til í þessum samlíkingum herra Gladvells og þess vegna hef ég ákveðið að á þeim tíma sem ég á eftir að gegna stöðu formanns í Íslenskri ættleiðingu ætli ég að beita mér fyrir því að félagið safni góðum og mikilvægum reynslusögum og frásögnum frá kjörfjölskyldum með einhverjum skipulegum hætti. Slíkt átak er táknrænt fyrir þá vinnu sem við þurfum hvert og eitt að vinna – og ef vel tekst til þá verður það þannig eftir þrjátíu ár þegar formaður félagsins skoðar fortíðina í ávarpi á samkomu sem þessari þá verður úr einhverju meira að moða en lélegum blaðagreinum og harmkvælum.


Svæði