Félagið flytur - aðstoð óskast
Í júlí flytur starfsemi félagsins úr Austurveri í Skipholt 50b. Næstkomandi laugardagsmorgun á að mála á nýjum stað og er öll hjálp félagsmanna vel þegin.
Fyrirtækið Íshamrar sem yfirtók leigusamning sem Saxhóll gerði við ÍÆ árið 2009 sagði leigusamningnum upp í apríllok. Félaginu bauðst að vera áfram í Austurveri á töluvert öðrum kjörum.
Ákveðið var að flytja starfsemina í hentugt og hagkvæmt húsnæði að Skipholti 50b. Þar er aðgengi gott, húsnæðið er snyrtilegt og vel skipulagt. Félagið fær húsnæðið afhent 1. júli fullbúið að öðru leiti en því að mála þarf nokkra veggi.
Nú skorum við á alla sem vettlingi geta valdið að leggja félaginu sínu lið og mæta í Skipholti 50b upp á aðra hæð milli klukkan níu og tíu á laugardagsmorguninn 2. júlí og mála nokkrar strokur.
Frú Vigdís Sveinsdóttir, stjórnarkonan knáa, heldur uppi fjörinu og skipuleggur móttöku á sjálfboðaliðum. Láttu nú sjá þig í félaginu þínu !