Framboð til stjórnar ÍÆ
Framboðsfrestur til stjórnar ÍÆ er runninn út. Kosið verður um tvö sæti í stjórn og tvo til vara. Eftirtaldir gefa kost á sér til stjórnarsetu:
Arnþrúður Karlsdóttir, gift Ólafi Kolbeinssyni og eiga þau tvö börn ættleidd frá Kína, 6 ára stúlku ættleidda 2003 frá Jiangxi héraði og 3 ára dreng ættleiddan 2007 frá Chongqing héraði. Fyrir áttu þau dreng fæddan 1993 en hann lést eftir langvarandi alvarleg veikindi 1999. Arnþrúður er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi af málabraut, útskrifaðist sem kerfisfræðingur frá Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands 1991 og hefur unnið sem kerfisfræðingur og forritari frá árinu 1990 nú síðast hjá Vigor ehf, dótturfyrirtæki Nýherja. Hefur tekið fjölda námskeiða í forritun og á öðrum sviðum tölvutækninnar bæði hérlendis og erlendis auk námskeiðis í sálrænni skyndihjálp hjá RKÍ. Formaður Einstakra barna, styrktarfélagi barna með sjaldgæfa alvarlega sjúkdóma 2001 til 2003, auk fjölda nefndarstarfa fyrir það félag. Arnþrúður sat í stjórn ÍÆ 2005 til 2009, hefur starfað í skemmtinefndinni og í ritstjórn vefsíðunnar. Tók þátt í undirbúningi á ferlum hjá ÍÆ vegna ættleiðingar barna með skilgreindar sérþarfir og er í SN nefnd (Special Need) félagsins sem sett verður á laggirnar í aprílmánuði og mun vinna að fræðslumálum og stuðningi við fjölskyldur SN barna innan ÍÆ. Hefur einnig verið með ferðanámskeið fyrir foreldra sem ættleiða frá Kína.
Guðbjörg Grímsdóttir er búsett á Selfossi og er grunnskólakennari. Hún starfar sem íslenskukennari á unglingastigi Vallaskóla á Selfossi. Meðfram vinnunni stundar hún meistaranám í menntunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifast nú í vor. Að auki vinnur hún að námsefnisgerð í íslensku ásamt tveimur öðrum íslenskukennurum, námsefnið er gefið út af Forlaginu. Guðbjörg og maður hennar eru að bíða eftir sínu fyrsta barni frá Kína.
Karl Steinar Valsson fæddur og búsettur í Reykjavík. Giftur og á eina dóttur sem ættleidd er frá Kína. Karl Steinar hefur starfað sem lögreglumaður í rúmlega 20 ár og starfar núna sem yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu. Karl Steinar er menntaður afbrotafræðingur auk meistaragráðu í viðskiptafræði. Karl Steinar hefur mikið starfað að félagsmálum bæði innan lögreglu og ýmissa félagasamtaka. Karl Steinar starfaði sem varaformaður IÆ frá 2006 til 2008.
Margrét R Kristjánsdóttir er gift Þóri Þórissyni og eiga þau tvær dætur Karen Rut 17 ára og Tinnu Maren sem ættleidd var frá Kína 2006. Margrét er stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík og lauk Lyfjafræðiprófi (Cand. Pharm) frá Danmarks Farmaceustiske Höjskole í Kaupmannahöfn 1992. Vinnur nú sem lyfjafræðingur í Lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands. Hef unnið við ýmiss félagsstörf í gegnum tíðina svo sem stjórn námsmannafélagsins í Kaupmannahöfn, Íslendingafélaginu í Kaupmannahöfn, Stéttafélag Lyfjafræðinga, Stjórn Foreldrafélags Víkings (skíðadeild) og fl.
Pálmi Finnbogason er stjórnmálafræðingur og starfar sem skrifstofustjóri Þjónustuskrifstofu iðnfélaga. Hann er giftur Svövu Rafnsdóttur garðyrkjufræðingi sem starfaði í skemmtinefnd ÍÆ í nokkur ár. Þau ættleiddu Auði Tiyu frá Indlandi árið 2002 og Hörpu Rósey Qingqin frá Kína árið 2005. Pálmi var í stjórn ÍÆ árin 2006-2008, er í stjórn Íbúasamtaka Hlíðahverfis og var um skeið starfsmaður og síðar í stjórn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.
Reynir Þór Finnbogason er giftur Kristínu Waage. Þau eiga eina dóttur sem er ættleidd frá Kína 2005 og bíða nú eftir öðru barni frá Kína. Reynir er stúdent frá Mennaskólanum við Sund og með framhaldsnám í tónlist og í upptökutækni í Hollandi. Hann hefur starfað sem tæknimaður og upptökustjóri fyrir sjónvarp og geisladiska og sem tónlistarkennari. Starfar nú sem söluráðgjafi tæknimála.
Ég, Þórhallur Árni Ingason hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til setu í stjórn Íslenskrar Ættleiðingar. Ég á sjálfur tvö ættleidd börn frá Indlandi, Arndísi Ísabellu (kom okt.2004) og Alexander Karl (kom feb.2009). Ég þekki þess vegna ættleiðingaferllið nokkuð vel og þar af leiðandi starfsemi félagsins.