Fréttir

Frávarpspróf

Umsækjendur um ættleiðingu þurfa að velja upprunaland þar sem umsókn þeirra bíður umsagnar. Hvert upprunaland gerir kröfur til umsækjendanna sem endurspegla gildi þjóðarinnar. Öll upprunalöndin sem Íslensk ættleiðing vinnur með krefjast sálfræðimats á umsækjendum. Tékkland gerir kröfu um tvennskonar sálfræðimat, persónuleikapróf og frávarpspróf eða eitthvert sambærilegt próf. Margir sálfræðingar á Íslandi hafa reynslu og þjálfun í að leggja persónuleikapróf fyrir fólk, en þeir eru færri sem hafa þjálfun í að leggja fyrir frávarpspróf.  

Árið 2013 breyttust kröfurnar sem miðstjórnvald Tékklands gerir til umsækjenda og voru þá gerðar kröfur um frávarpspróf. Á þeim tíma leitaði félagið til Sálfræðingafélagsins en þar var enginn sem hafði þjálfun í frávarpsprófum. Eftir mikla leit fannst einn sálfræðingur sem hafði unnið með þessa tækni, en sálfræðingurinn er frá Tékklandi og lærði þar. Þessi sálfræðingur, Jiri Jón Berger, hefur verið búsettur á Akureyri og hafa umsækjendur sem hafa ákveðið að senda umsókn sína til Tékklands þurft að heimsækja höfuðstað Norðurlands til þess að taka frávarpspróf hjá Jiri. 

Nú hefur Jiri ákveðið að flytja til Tékklands á ný og óljóst hvernig umsækjendur um ættleiðingu í Tékklandi geta uppfyllt kröfuna um frávarpspróf.  

Íslensk ættleiðing hefur hafið viðræður við miðstjórnvald Tékklands um hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.  

Þangað til að niðurstaða hefur náðst, hefur Jiri boðist til að heimsækja Ísland reglulega til að leggja prófin fyrir.  

Þeir sem eru að velta fyrir sér að senda umsókn til Tékklands á næstunni er bent á að bregðast við hið fyrsta og panta tíma hjá Jiri, áður en hann flytur af landi brott í júlí.


Svæði