Fréttablaðið - Danir hætta að taka við ættleiðingarumsóknum vegna fjárskorts
Danska ættleiðingastofnunin, DIA, sem haft hefur milligöngu um frumættleiðingar frá öðrum löndum er hætt að taka við umsóknum. Var gefin út fréttatilkynning um þetta fyrr í mánuðinum. Ástæðan er sú að stofnunin telur sig ekki geta tryggt að mál verði kláruð vegna fjárskorts og var fjölskyldum greint frá þessu í vor.
Alþjóðlegum ættleiðingum hefur fækkað mikið á síðastliðnum árum og er ástæðan sú að stór lönd, eins og Kína, hafa lokað fyrir umsóknir vegna þjóðfélagsbreytinga.
Á Íslandi hefur frumættleiðingum frá öðrum löndum fækkað úr um 20 á ári niður í fimm á aðeins fjórum árum. Sama er uppi á teningnum í Danmörku. Árið 2010 voru 418 erlend börn ættleidd þar í landi en árið 2018 voru þær aðeins 64.
„Nú þegar við ákveðum að taka ekki við nýjum umsækjendum er það eingöngu vegna þess að við í stjórninni teljum ekki rétt að setja ættleiðingarferli af stað sem við getum ekki tryggt að hægt verði að vinna áfram. Fjárhagslegar horfur fyrir árið 2020, sýna fram á mikinn halla. Þess vegna höfum við því miður neyðst til að taka þessa ákvörðun, að taka ekki við nýjum umsækjendum,“ segir í tilkynningunni sem Lars Ellegaard, stjórnarformaður DIA, undirritaði.
Þegar ættleiðingum fækkaði dróst fjármagn til DIA saman og var svonefndri áfrýjunarnefnd falið að rannsaka möguleika á fjármögnun og koma á nýju kerfi, eins og breið samstaða er um á danska þinginu. Það hefur dregist og ólíklegt er að nýtt kerfi líti dagsins ljós fyrr en árið 2021. – khg
Fréttablaðið - Danir hætta að taka við ættleiðingarumsóknum vegna fjárskorts