Fréttir

Fréttir frá löndunum

INDLAND

Nú eru komnar nýjar leiðbeiningar um ættleiðingarmál frá CARA, skrifstofunni sem stýrir öllum ættleiðingarmálum í Indlandi.

Þær breytingar sem þar eru kynntar eru sumar til bóta en aðrar ekki.  Eins og alltaf kemur betur í ljós með tímanum hvernig þessar nýju reglur munu reynast en Anju, forstöðukonu barnaheimilisins okkar, líst ágætlega á þær hvað varðar starfsemi barnaheimilisins.  Við eigum eftir að kynna okkur þessar nýju reglur betur, bókin með þeim er nýkomin. 

Eitt atriði veldur miklum vonbrigðum, það er hækkun lágmarksaldurs umsækjenda og lengd giftingar- og sambúðartíma.  Nú mega umsækjendur um ættleiðingu vera á aldrinum 30 - 45, áður var lágmarksaldurinn 25 ár, og allir þurfa að hafa verið giftir og í sambúð í lágmark 5 ár.  Þessar nýju reglur bitna mjög illa á pörum sem hafa beðið nokkuð  lengi eftir ættleiðingu frá Indlandi og þar sem annar aðilinn er yngri en 30 ára en þessi pör hafa ekki getað sótt um ættleiðingu frá Kína vegna of ungs aldurs.  Augljóst er að ættleiðingar þessara para dragast vegna breytinganna, því miður.  

Kostnaðurinn í Indlandi er nú ein upphæð í stað þess að áður var reiknaður kostnaður fyrir hvern dag sem barnið dvaldi á barnaheimili og síðan bættist við ýmis annar kostnaður, svo sem læknis- og lögfræðikostnaður. Biðlistinn hefur styst og er hægt að taka við fleiri umsóknum en erfitt að áætla heildarbiðtíma, sennilega er hann 2-3 ár.

KÍNA

Á undanförnum mánuðum hefur biðtími í Kína lengst mikið, úr 6 mánuðum í 12 mánaða bið eftir afgreiðslu umsókna og óljóst hvort biðin lengist eitthvað áfram.

Á fundum stjórnar ÍÆ með kínversku sendinefndinni í apríl var þetta rætt en sendinefndin var ófáanlegt til að segja nokkuð um hver biðtíminn verður á næstu mánuðum. Ástæða lengri biðtíma er mikil fjölgun umsókna frá útlendingum og færri börn laus til ættleiðingar, bæði vegna fleiri ættleiðinga innanlands í Kína og líka vegna betri fjárhags almennings sem leiðir til þess að færri börn eru yfirgefin af fjárhagslegum ástæðum. Eflaust eru fleiri atriði sem skipta máli, eins og endurskipulaging í fyrra sem fól í sér m.a. að CCAA annast nú allar ættleiðingar innanlands og hefur yfirumsjón með öllum barnaheimilum og velferðarmálum í þágu barna á barnaheimilum í Kína.

Síðan er margumræddur flutningur CCAA á döfinni í júní-júlí skv. ummælum sendinefndarinnar en spurning hvort hann hefur tafir í för með sér.

Nú bíður hópur 15 eftir upplýsingum um börn og úti í Kína eru umsóknir fyrir hópa 16, 17 og 18. Unnið er að frágangi umsókna fyrir hópa 19 og 20, hópur 21 er að myndast. Heildarbiðtími er nú tæp 2 ár en gæti lengst meira

KÓLUMBÍA

Í Kólumbíu eru nú 5 umsóknir og umsækjendurnir sem lengst hafa beðið fengu nýlega upplýsingar um að þau muni ættleiða í höfuðborginni Bogota. Heildarbiðtími eftir ættleiðingu í Kólumbíu er um tvö og hálft ár og lengdist mikið í fyrra.

TÉKKLAND

Ein umsókn er í Tékkland.  Ekki er vitað hvenær upplýsingar um barn berast.


Svæði