Fréttir

Fundir formanns og framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar með ráðherrum

Síðustu vikur hafa framkvæmdastjóri og formaður Íslenskrar ættleiðingar átt fundi með forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra,  til að ræða stöðuna á ættleiðingarmálaflokknum.

Frá árinu 2013 hefur félagið verið með þjónustusamning við Innanríkisráðneytið (Dómsmálaráðuneytið) og breytti það miklu í að tryggja fjárhag félagsins, en sá samningur tryggði fjármögnun félagsins til 2 ára og gjörbreyti aðstöðu þess til að sinna þeim verkum sem því var ætlað skv. lögum og reglugerðum. Þessi samningur og framlög til félagsins úr fjárlögum mörkuðu tímamót í sögu ættleiðinga í heiminum, vöktu og vekja enn þá athygli erlendis því með þessu var fjármögnun og gæði ættleiðingarstarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga.  Hið Íslenska ættleiðingar módel eins og það er kallað er orðið vel þekkt, þjónustusamningurinn við ráðuneytið sem tryggði rekstur félagsins þannig að fræðsla, ráðgjöf, stuðningur og þjónusta væri tryggð.  

Félagið telur þó að margt í samningnum þurfi að laga að breyttu umhverfi og það fjármagn sem félagið fær vegna hans, nægi ekki til að sinna öllum lög boðnum verkefnum. Í upphafi þessa árs var skrifað undir þjónustusamning til eins árs og átti að byrja vinna í endurskoðun á samningnum en það hefur því miður ekki orðið af því enn þá. Og komið hefur fram að þessi þjónustusamningur snýr nærri eingöngu að milligöngu, en kemur þó fram í samningnum að við megum veita aðra þjónustu. Árið 2020 þurftum við að hækka þjónustugjöld hjá félaginu og fara  að rukka fyrir þjónustu/stuðning sem við teljum að umsækjendur, kjörforeldrar, ættleidd börn eða uppkomnir ættleiddir ættu ekki að greiða fyrir.      

Reglugerðir og lög eru ekki lengur í takt við daginn í dag. Árið 2017 fékk félagið send drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar sem myndi fella eldri reglugerð úr gildi, félagið og Sýslumannsembættið fengu tækifæri til að senda inn athugasemdir eða breytingartillögu, en enn þá er sama reglugerð í gildi. Síðasta haust settust stjórn og starfsfólk aftur yfir reglugerðina og sendi breytingartillögur, en sú vinna er enn þá í biðstöðu.   

Starf og þjónusta félagsins miðar að því að sinna félagsmönnum eins vel og kostur er enda eru þeir félagið. Eitt af markmiðum Íslenskrar ættleiðingar er að tryggja góða faglega þjónustu og það hafa orðið miklar breytingar frá 1988 þegar einn starfsmaður var í hlutastarfi, en nú er framkvæmdarstjóri, verkefnastjóri og félagsráðgjafi/fjölskyldufræðingur, auk verktaka.  En það þarf að huga vel að því að fjölskyldur og börn fái viðeigandi þjónustu svo þeim farnist vel eftir ættleiðingu og það viljum við standa vörð um.  Börnin sem eru ættleidd eru eldri þegar þau koma í sína kjörfjölskyldu en áður og í ljósi þess njóta þau ekki sömu þjónustu og nýfædd börn, en þeirri þjónustu er ætlað að styðja við barnið og foreldra þess. Þarna kemur Íslensk ættleiðing inn í staðinn og veitir stuðning og ráðgjöf sem stuðlar að velferð þeirra.  

Í gæðahandbók Haag-stofnunarinnar er meðal annars vísað til þess að ættleiðing sé ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða.  Staða ættleiðingarmála í dag er sú að ættleiðingum fer fækkandi og biðin er orðin lengri, og hvert mál er flóknara. Þessar breytingar eru ekki bara að eiga sér stað hjá okkur á Íslandi heldur í öllum heiminum. Áherslan hefur færst mun meira frá því að sjá um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og  stuðning til væntanlegra kjörforeldra, ættleiddra barna og uppkominna ættleiddra;  á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. Fleiri eru farnir að huga að því hvaða áhrif ættleiðingin getur hafa haft og aðrir eru farnir að huga að uppruna sínum og vilja leggja í þá vegferð að leita hans og þessir aðilar þurfa aðstoð.  

Síðustu ár höfum við hjá félaginu beðið eftir því að Dómsmálaráðuneytið hefði samband við önnur fagráðuneyti til að koma þessum málaflokki áfram á þá staði sem æskilegt væri, enda eru þetta mál sem tilheyra mörgum fagráðuneytum. En eftir árangurslausa bið fengum við leyfi til þess í upphafi sumars að óska sjálf eftir fundum við önnur fagráðuneyti til að fara yfir hvernig þau tengjast málaflokknum. Við setjum ákveðnar vonir við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna en getum ekki beðið eftir innleiðingunni á þeim lögum og höfum áhyggjur af því að ættleidd börn detti á milli þar sem málaflokkurinn er lítill.  

Við vonum að hægt verið að halda áfram að þróa það starf sem unnið hefur verið síðustu ár og að Ísland haldi áfram að vera í farabroddi í að auka gæði þjónustu og fræðslu sem þessi málaflokkur á skilið.   

 


Svæði