Fyrirlestur um lífsbók
Foreldrafélag ættleiddra barna stendur fyrir fyrirlestri þann 23. september 2009 um tilgang og gerð Lífsbókar fyrir ættleidd börn.
Gíslína V. Ólafsdóttir mun fara yfir hvernig Lífsbókin getur komið sér vel fyrir ættleidd börn og hvernig bókin getur hjálpað okkur foreldrum að ræða við börnin okkar um fortíð þeirra. Einnig verður farið yfir hvernig hægt er að gera Lífsbækur.
Það getur verið tilvalið fyrir þá sem eru í biðinni eftir barni að kynna sér gerð bókarinnar og byrja á að gera bók sem hentar barninu fyrst eftir að heim er komið, og fylla síðan inn í hana þegar upplýsingar berast um barnið. Það er gott að vera búin að fara í gegnum það hvernig á að segja barninu frá uppruna sínum og svara spurningum þegar barnið fer að spyrja.
Í framhaldi af fyrirlestrunum verður haldin vinnustofa einu sinni á mánuði, ef næg þátttaka fæst. Þar mæta þátttakendur með sína eigin Lífsbók og fá ráðleggingar og hvetja hvern annan áfram við gerð hennar.
Stefnt er að því að taka fyrirlesturinn upp á eMission. Þá geta þeir sem eiga ekki heimangengt eða búa ekki á stór Reykjavíkursvæðinu fengið aðgang að honum gegn vægu gjaldi.
Fyrirlesturinn verður haldin í Safnaðarheimili Seljakirkju miðvikudaginn 23. september kl. 20:00.
Boðið verður upp á kaffi og meðlæti
Aðgangseyrir er 500 kr. fyrir félagsmenn og 1.000 kr. fyrir aðra.
Athygli er vakin á að ekki er tekið við greiðslukortum.
Hvað er Lífsbók og af hverju að gera hana?
Við óskum þess öll að börnin okkar séu hamingjusöm og með gott sjálfstraust. Börnin okkar óskuðu ekki sjálf eftir að verða ættleidd og við sem foreldrar þurfum að hjálpa þeim að skilja hvað það er að vera ættleiddur. Það er okkar verk að undirbúa börnin út í lífið og efla sjálfstraust þeirra. Ef við upplýsum þau um upprunalandið sitt og atburði úr lífi þeirra áður en þau komu til okkar og ræðum mögurlegar ástæðu þess að þau voru gefin til ættleiðingar, geta þau farið að mynda með sér heilbrigða sjálfsímynd.
Lífsbók er saga barnsins, séð með augum þess, frá fæðingu og þar til að það kemur til okkar foreldranna. Í bókinni er sagt frá m.a. kynforeldrum barnsins, upprunalandi og menningu þess, fæðingastað, barnaheimili/fósturforeldrum og endar bókin á því hvernig barnið kom til okkar foreldra sinna. Lífsbókin er meðal annars ætluð til að aðstoða foreldra við að svara spurningum eins og hver er ég og hvaðan kom ég? Eftir að hafa sest niður og gert Lífsbókina erum við betur undir það búin að svara spurningum barnsins um uppruna sinn, þar sem við erum búin að fara í gegnum hvernig við teljum best að svara þeim við gerð bókarinnar.
Lífsbók tengir fortíð barnsins við nútíð þess og hjálpar barninu að stíga inn í framtíðina með sterka sjálfsmynd.