Gleðilegt nýtt ár!
Síðastliðið ár var óvenjulegt í alla staði og hver áskorunin tók við af annari. Starf ættleiðngarfélaga var óvenjulegt í alla staði eins og annað á þessu blessaða ári og var mikil umræða innan samstarfsfélaga um þær áskorannir sem félögin stóðu frammi fyrir.
Starf Íslenskrar ættleiðngar gat þó haldið með nokkuð eðlilegum hætti og má þakka það góðu samstarfi við upprunaríkin sem félagið starfar með, enda hefur verið lögð áhersla á að styrkja tengslin við þær stofnanir sem félagið er í mestu samstarfi við.
Átján fjölskyldur heimsóttu félagið í fyrsta skipti á þessu ári og er það talsvert færra en á síðastliðinum árum. Hins vegar var nánast 100% aukning á umsóknum um forsamþykki frá síðasta ári og eru því fleiri sem eru að hefja ættleiðingarferil með félaginu.
Það hefur vakið athygli að fjöldi synjana frá sýslumannsembættinu hefur aukist verulega uppá síðkastið. Þá hefur það ekki vakið síðri athygli að fjöldi þeirra mála sem hafa verið kærð til dómsmálaráðuneytisins hefur aukist og að lang flestum tilvikum er synjun sýslumannsembættisins felld úr gildi og annaðhvort hefur embættinu verið gert að gefa út forsamþykki eða að taka málið til umfjöllunar á ný.
Í lok ársins voru aðeins 14 umsóknir í ferli hjá erlendum ættleiðingaryfirvöldum, 7 í Tékklandi, 4 í Kólumbíu og 3 í Kína.
Fimm börn eignuðust foreldra með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á árinu sem leið, 4 frá Tékklandi og 1 frá Tógó, en það eru jafn mörg börn og árið á undan, sem kemur verulega á óvart í því ástandi sem ríkti.
Á aðalfundi félagsins komu tveir nýjir inní stjórn og tveir létu af störfum fyrir félagið. Berglind Glóð Garðarsdóttir og Dylan Andres Herrera Chacon tóku við af Ingibjörgu Valgeirsdóttur og Sigrúnu Evu Grétarsdóttur. Ingibjörgu og Sigrúnu er þakkað fyrir ómetanlegt starf í þágu munaðarlausra barna og þeirra fjölskyldna sem hafa ættleitt í gegnum árin.
Formaður Íslenskrar ættleiðingar, Elísabet Hrund Salvarsdóttir tók við formennsku Nordic Adoption Council á árinu og er það í fyrsta skipti sem Ísland leiðir starf samtakanna.
Það hefur verið í nógu að snúast hjá NAC, enda fordæmalausir tímar þar eins og annarsstaðar.
Íslensk ættleiðing bætti við sig verkefnum á árinu með samningi við félagsmálaráðuneytið um þjónustu við flóttafólk sem hefur fengið hæli á Íslandi og fær fjölskyldusameiningu á þeim grundvelli. Sá stuðningur og aðferðafræði sem félagið vinnur eftir hefur vakið athygli og eru aðstæður þessara fjölskyldna á margan hátt sambærilegar við þær aðstæður sem fjölskyldurnar sem ættleiða eru í þegar þær eru að hitta börnin sín í fyrsta skipti.
Árið endaði svo á afar jákvæðum nótum. Rétt fyrir jólin færði starfsfólk félagsins einni fjölskyldu þær dásamlegu fréttir að búið væri að para þau við barn. Árið 2021 byrjar því ljómandi vel og er þess að vænta að fjölskyldan ferðist til upprunaríkis barnsins um leið og ástandið þar verður betra.
Starfsfólk og stjórn félagsins líta því björtum augum til ársins sem er að hefjast.
Gleðilegt ár öll sömul – við hlökkum til samstarfsins á komandi ári.