Fréttir

Hamingjustund

Unnsteinn Orri og Úlfhildur
Unnsteinn Orri og Úlfhildur

Í nótt hittustu Úlfhildur og Unnsteinn Orri í fyrsta skipti í Wuhan í Kína. Þegar Úlfhildur mætti kl. 15 á kínverskum tíma á ættleiðingarmiðstöðina var eftirvæntingin í hámarki, spenna og kvíði í bland við að hitta litla soninn. Stuttu síðar mætti hann í fangi forstöðumanns barnaheimilisins og var Unnsteinn Orri pínu feiminn þegar hann loks hitti mömmu sína, kom í fangið í stutta stund og vildi svo ekki meira í bili. En hún var vel undirbúin með rúsínur og Cherrios og nokkra bíla og þau léku sér í bílaleik á meðan þau skoðuðu hvort annað í róleg heitum. Unnsteinn Orri brosti og hló og stundin var dásamleg. 

Þegar það var kominn tími til að kveðja starfsmenn barnaheimilisins veifaði hann bara og sendi fingurkoss úr fanginu hennar mömmu. Bílferðin á hótelið gekk vel sem og restin af deginum sem fór í að leika, borða og svo sofna í mömmufangi. Þetta gekk allt saman frábærlega vel.

Umsókn Úlfhildar var móttekin af yfirvöldum í Kína 23. júlí 2015 og var hún pöruð við Unnstein Orra 9. október 2015. Hún var því á biðlista í Kína í 11 vikur eða 77 daga. Þetta er 16 fjölskyldan sem sameinast með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári en börnin eru orðin 20. Nú hafa 182 börn verið ættleidd frá Kína til Íslands.

 

 

  

 


Svæði