Hamingjustund
Í nótt sameinaðist fjölskylda í Changchun í Kína.
Anna Rósa og Heimir fóru í apríl til Kína til að sækja drenginn sinn Breka Ingimar.
Það var dásamleg stund sem fjölskyldan átti í Changchun þegar þau hittust. Breki Ingimar var greinilega búinn að skoða myndirnar af foreldrum sínum sem þau höfðu sent á barnaheimilið eftir að þau voru pöruð saman og fór hann í fangið á mömmu sinni og fann strax til öryggis í foreldrafaðmi.
Umsókn Heimis og Önnu Rósu var móttekin af yfirvöldum í Kína 11. febrúar 2014 og voru þau pöruð við Breka Ingimar 10. mars 2015. Þau voru því á biðlista í Kína í 13 mánuði.
Þetta er sjötta fjölskyldan sem sameinast með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári en börnin orðin átta. Nú hafa 178 börn verið ættleidd frá Kína til Íslands.