Hamingjustund
Í nótt sameinaðist fjölskylda í Fuzhou í Kína.
Daníel og Rut voru að hitta litlu dóttur sína í fyrsta sinn. Starfsfólk barnaheimilisins kom með Ísold Lílý á hótelið til þeirra, en þar hefur verið útbúin aðstaða fyrir fjölskyldur til að sameinast. Ísold Lílý hafði verið lengi á leiðinni og var því orðin þreytt þegar þau loksins hittust, en stundin var engu að síður töfrum hlaðin og nánast ólýsanleg. Það var hamingjusöm fjölskylda sem lagðist á koddan sinn í dag, brosandi út að eyrum.
Umsókn Daníels og Rutar var móttekin af yfirvöldum í Kína 28. febrúar 2015 og voru þau pöruð við Ísold Lílý 14. apríl 2015. Þau voru því á biðlista í Kína í 45 daga.
Þetta er sjöunda fjölskyldan sem sameinast með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári en börnin orðin níu. Nú hafa 179 börn verið ættleidd frá Kína til Íslands.