Háttsettir gestir hjá ÍÆ
Þriðjudaginn 21. okt kom til Íslands sendinefnd frá kínverskum ættleiðingarstjórnvöldum til að hitta íslensk stjórnvöld, stjórn ÍÆ og börn sem hingað hafa verið ættleidd. Sá sem fór fyrir sendinefndinni heitir Zhang, háttsettur ráðuneytismaður en einnig var í ferðinni kona að nafni Liu sem gegnir starfi forstjóra BLAS og er jafnframt aðstoðarforstjóri CCAA, ættleiðingarmiðstöðvarinnar, auk þeirra komu aðstoðarkona og túlkur.
Heimsóknin sem stóð fram á föstudagskvöld tókst vel. Dagskráin var þétt og hver stund notuð. Eldsnemma á miðvikudagsmorgunn var farið í skoðunarferð um Reykjavík í umferðartöfum vegna fyrstu snjókomu vetrarins. Síðan var fundur og hádegisverður í boði dómsmálaráðuneytis, þá voru m.a. skoðaðar sýningar í Þjóðmenningarhúsi og gengið um Laugaveginn og svo var farið í heimsókn til fjölskyldu sem á þrjú ættleidd börn, þar af tvær dætur frá Kína. Fjölskyldan tók sérlega vel á móti gestunum sem þótti gaman að sjá íslenskt heimili og fræðast um skólagöngu og hversdag íslenskra barnafjölskyldna.
Eftir heimsóknina var fjölmennur fjölskyldufundur þar sem um 130 manns hittust, fullorðnir og ættleidd börn frá Kína. Var mikil ánægja með boðið enda mætingin frábær og börnin yndisleg í sínu fínasta pússi. Bestu þakkir til ykkar allra sem gátuð mætt og lögðuð til kaffibrauð á hlaðborðið, vonandi höfðuð þið einnig ánægju af að hitta gestina. Deginum lauk með kvöldverðarboði í kínverska sendiráðinu.
Fimmtudagurinn fór í skoðunarferð um Þingvelli, Gullfoss og Geysi og eftir hana var fundur með stjórn ÍÆ og starfsmönnum og svo kínverskur kvöldverður í boði félagsins.
Á föstudagsmorguninn voru fleiri skoðunarferðir á dagskrá ásamt heimsókn í Bláa lónið og vegna tafa á flugi var hægt að nýta daginn vel. Sendinefndin fór síðan um kl. 18 til USA þar sem til stóð að heimsækja ættleiðingarskrifstofu sem líklega er sú stærsta í heimi. Það hafa verið skemmtileg viðbrigði að koma þangað eftir að hafa verið í heimsókn hjá ÍÆ, samstarfsaðilanum í fámennasta samstarfslandinu.
Þegar við kvöddum gestina á Keflavíkurflugvelli, eins og kínverskar kurteisisvenjur gera ráð fyrir, kom fram að þeir voru sérlega ánægðir með Íslandsheimsóknina og með samstarfið við íslensk stjórnvöld og ÍÆ.
Tilgangur heimsóknarinnar var að styrkja samstarf kínverskra stjórnvalda við ÍÆ og kynna okkur starf BLAS og þá þjónustu sem í boði er, sérstaklega fyrir fjölskyldur sem vilja ferðast aftur til Kína til að kynnast uppruna barnanna betur og er í þeim ferðum mögulegt að heimsækja barnaheimilin eða hitta fósturfjölskyldur barnanna. Á fundunum var staðfest að samstarf er með miklum ágætum, ekki komu fram af hálfu gestanna neinar óskir um breytingar á vinnu hér.
Stjórn ÍÆ notaði tækifærið til að koma á framfæri sjónarmiðum varðandi ættleiðingarferlið og var þeim vel tekið. Spurt var um biðtímann og því lýst hve óvissan er erfið fyrir umsækjendur en svörin voru á þá leið að starfsfólk CCAA veit ekki hversu langur biðtíminn verður því ekki er vitað um hve mörg börn munu í framtíðinni þurfa að eignast nýja fjölskyldu. Ef fólk sýnir þolinmæði og bíður eftir að röðin komi að því þá mun það geta ættleitt barn í Kína. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á ættleiðingarferlinu, hvorki því almenna né á ættleiðingum barna með sérþarfir, en á fundinum komu fram áhyggjur okkar af því að 48 tímar eru of stuttur tími til að ná í fleiri sérfræðinga en Gest ef spurningar vakna varðandi heilsufar barna með sérþarfir.
Það er augljóst að gott er fyrir ÍÆ að fá svo háttsetta gesti sem kynnast íslenskum staðháttum og sjá hversu vel kjörforeldrar annast börnin sín. Í þetta sinn eru aðstæður aðrar en í fyrri heimsóknum kínverskra sendinefnda til Íslands og var gott að geta sýnt gestunum að þrátt fyrir mikla umfjöllun um kreppu á Íslandi þá lá vel á fólki sem þeir hittu og verslanir eru fullar af vörum. Í lokaundirbúningi ferðarinnar höfðu þau lýst yfir áhyggjum af ástandinu á Íslandi en þau fóru héðan viss um að börnunum vegnar vel hér.