Hvað langar þig að fræðast um ?
Íslensk ættleiðing eru í grunninn frjáls félagasamtök og er félagið ekkert án félagsmanna sinna og hefur síðustu ár dregið úr þátttöku þeirra í starfi félagsins, en það er okkar von að félagsmenn fari að nýta sér alla þá fræðslu sem þeim stendur til boða og aðstoð þess góða starfsfólks sem starfar á skrifstofu félagsins.
Alltaf er verið að leita nýrra leiða til að fræða og þjónusta félagsmenn eftir bestu getu. Árið 2018 var ný fræðsluáætlun tekin í notkun hjá félaginu, en með henni jókst fræðsla til umsækjenda og færðist hún framar í ættleiðingarferilinn en áður. Markmiðið með því að færa fræðsluna framar í ferlið var að þekking umsækjenda aukist og umsækjendur séu betur undirbúnir fyrir erfið mál sem geta tengst ættleiðingum, áföllum sem barnið hefur gengið í gegnum, erfiðleika vegna tengslamyndunar, lélegrar félagsfærni og fleira.
Áherslan hefur færst mun meira frá því að sjá um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og stuðning til væntanlegra kjörforeldra, ættleiddra barna og uppkominna ættleiddra; á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. Fleiri eru farnir að huga að því hvaða áhrif ættleiðingin getur hafa haft og aðrir eru farnir að huga að uppruna sínum og vilja leggja í þá vegferð að leita hans og þessir aðilar þurfa aðstoð.
Nú langar okkur að óska eftir tillögum frá félagsmönnum með von um að þátttaka þeirra aukist.