Íslensk ættleiðing 46 ára
Þann 15.janúar 1978 var stofnfundur félagsins haldin og hlaut félagið nafnið Ísland – Kórea sem síðan var sameinað félaginu Ísland - Guatemala og hlaut hið sameinaða félag nafnið Íslensk ættleiðing árið 1983. Árið 2010 var félagið svo sameinað Aðþjóðlegri ættleiðingu. En á þeim 46 árum síðan félagið var stofnað hefur margt breyst. 14 formenn hafa starfað fyrir hönd félagsins, í mislangan tíma.
Í upphafi byggðist allt starf Íslenskrar ættleiðingar upp á sjálfboðavinnu félagsmanna og annarra velunnara, ekki var skrifstofa og flestir stjórnarfundir voru haldnir heima hjá stjórnarmönnum – við eldhúsborðið. Vendipunktur varð í starfi félagsins þegar skrifstofa var opnuð árið 1988, en þegar hafið var samstarf við Indland var eitt af skilyrðum þeirra að félagið væri með skrifstofu. Mikil hluti starfsins hélt þó áfram að vera í sjálfboðavinnu, t.d. fræðsla og stjórnarstörf. Árið 1993 kom svo jákvætt svar frá Fjárlaganefnd Alþingis um að félagið fengi árlegan styrk frá hinu opinbera en fyrir það hafði eina tekjulind félagsins verið félagsgjöld og fjáraflanir.
Miklar breytingar urðu í heimi ættleiðingarmála á þessum árum. Árið 1993 var gerður Haag samningurinn um vernd barna og ættleiðingar á milli landa en Ísland gat ekki gerst aðili að þeim samningi fyrr en ný ættleiðingarlög voru sett árið 2000. Með aðild að samningnum var tryggð samvinna aðildarríkjanna um ættleiðingar barna. Sama ár, 1993, kom Íslensk ættleiðing að stofnun Euradopt – regnhlífarsamtaka ættleiðingarfélaga í Evrópu. Fyrsti fulltrúi félagsins var Ingibjörg Birgisdóttir sem sat í stjórn Íslenskrar ættleiðingar í 11 ár. Og tveimur árum síðar gengur félagið í samtök norrænna ættleiðingarfélaga Nordic Adoption Council, NAC. Fulltrúar félagsins sitja í stjórnum þessara samtaka og taka þátt í ýmsum verkefnum. Það hefur verið og er mjög mikilvægt fyrir lítið félag eins og okkar að komast í samstarf við önnur félög til að efla allt starf. Þar náum við að afla okkur frekari þekkingar og kynnast kollegum okkar sem vinna í þessum málaflokki.
En það er ekki bara barátta utan landssteinana sem hefur komið félaginu að góðu. Kjörforeldrar áttu ekki rétt á fæðingarorlofi áður en frumvarp um það var samþykkt á Alþingi 1995. 2006 kemur síðan Ættleiðingarstyrkur en fram að því töldu stjórnvöld að sá styrkur sem félagið fékk sjálft væri nóg, ekki þyrfti sérstaklega að styrkja kjörforeldra.
Miklar breytingar urðu á stjórn félagsins eftir aðalfund þess árið 2009, eftir hann var byrjað að undirbúa vinnu að samningi milli félagsins og ríkisins til að félagið gæti staðið undir þeim verkefnum sem koma fram í lögum og reglugerðum. Tíunduð voru verkefni félagsins og gert kostnaðarmat. Í desember 2013 var svo undirritaður þjónustusamningur milli Innanríkisráðuneytis og Íslenskrar ættleiðingar. Baráttan sem átt hafði sér stað á árunum á undan hafði skilað sér að hluta. Mikið starf var unnið að hálfu stjórnar og skrifstofu til að ná þessum samningi og var rætt við langflesta alþingismenn sem sátu á Alþingi þessi ár. Samningurinn tryggði fjármögnun félagsins til 2 ára og gjörbreyti aðstöðu þess til að sinna þeim verkum sem því var ætlað skv. lögum og reglugerðum. Þessi samningur og framlög til félagsins úr fjárlögum mörkuðu tímamót í sögu ættleiðinga, vöktu og vekja athygli erlendis því með þessu eru fjármögnun og gæði ættleiðingarstarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga. Hið Íslenska módel eins og það er kallað er orðið vel þekkt, þjónustu-samningurinn við ráðuneytið sem tryggir rekstur félagsins þannig að fræðsla, ráðgjöf, stuðningur og þjónusta er tryggð. Á fundum og ráðstefnum erlendis erum við ítrekað spurð um þetta módel og beðin um að skýra hvernig við fengum ríkið til að gera samninginn við félagið. Enda algjört einsdæmi.
Starf og þjónusta félagsins miðar að því að sinna félagsmönnum eins vel og kostur er enda eru þeir félagið. Eitt af markmiðum Íslenskrar ættleiðingar er að tryggja góða faglega þjónustu. Það hafa orðið mikilar breytingar frá 1988 þegar einn starfsmaður var í hlutastarfi, nú er framkvæmdarstjóri, verkefnastjóri og félagsráðgjafi, auk verktaka. Í gæðahandbók Haag-stofnunarinnar er meðal annars vísað til þess að ættleiðing sé ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða. Ættleiðing er alltaf áfall fyrir barn, það er verið að taka það úr aðstæðum sem það þekkir og setja það inn í nýjar aðstæður sem eru því framandi. Það er talað um að börn hafi upplifað þrenns konar áfall eftir að hafa verið ættleitt; að verið aðskilið frá blóðforeldri, alast upp á barna- eða fósturheimili og svo ættleiðingin sjálf. Slíkt reynir alltaf bæði á barnið og kjörforeldrana og því mikilvægt að undirbúningur, stuðningur og ráðgjöf í ferlinu öllu sé til staðar. Það þarf að huga að því að fjölskyldur og börn fái viðeigandi þjónustu svo þeim farnist vel eftir ættleiðingu.
Árið 2018 var ný fræðsluáætlun tekin í notkun hjá félaginu, en með henni jókst fræðsla til umsækjenda og færðist hún mun framar í ættleiðingarferilinn en áður, alltaf er verið að leita nýrra leiða til að bæta þjónustu félagsins. Markmiðið með því að færa fræðsluna framar í ferlið var að þekking umsækjenda aukist og umsækjendur séu betur undirbúnir fyrir erfið mál sem geta tengst ættleiðingum, áföll sem barnið hefur gengið í gegnum, erfiðleika vegna tengslamyndunar, lélegrar félagsfærni og fleira. Þetta hefur stuðlað að því að fjölskyldur frá Íslandi skera sig úr þegar kemur að þekkingu á ættleiðingum, þegar þær eru bornar sama við aðra umsækjendur í upprunalöndum barnanna sem félagið starfar með.
Áherslan hefur færst mun meira frá því að sjá um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og stuðning til bæði væntanlegra foreldra á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. Fleiri eru farnir að huga að því hvaða áhrif ættleiðingin getur hafa haft og aðrir eru farnir að huga að uppruna sínum og vilja leggja í þá vegferð að leita hans og þessir aðilar þurfa aðstoð félagsins.
Í ljósi þess að börn eru að verða eldri sem koma til landsins njóta þau ekki sömu þjónustu og nýfædd börn, en þeirri þjónustu er ætlað að styðja við barnið og foreldra þess. Þarna reynir starfsfólk hjá Íslenskri ættleiðingu að koma inn í staðinn og veitir stuðning og ráðgjöf til að stuðla að velferð þessara barna og kjörfjölskyldna þeirra. Sérfræðingur félagsins hefur samband við umsækjendur og kjörfjölskyldur reglulega til að fylgjast með hvernig þeim gangi og hvort grípa þurfi inn í á einhvern hátt. Ættleiðingarferlið getur verið langt og erfitt og telur félagið því skipta miklu máli að umsækjendur hafi stuðning frá starfsfólki skrifstofu. Tengsl myndast og tekur starfsfólk meiri þátt í ferlinu með umsækjendum og hvetur það umsækjendur meira til að leita til Íslenskrar ættleiðingar ef eitthvað kemur uppá.
Við viljum þakka öllum þeim sem hafa komið að þeirri þróun sem átt hefur sér stað frá því að félagið var stofnað fyrir 46 árum síðan. Og vonum að hægt verið að halda áfram að þróa það góða starf sem unnið hefur verið síðustu ár og að Íslandi haldi áfram að vera í fararbroddi í að auka gæði þjónustu og fræðslu sem þessi málaflokkur á skilið.