Íslensk ættleiðing á afmæli í dag
Síðdegis þann 15. Janúar árið 1978 kom nokkur hópur fólks saman í Norræna húsinu í þeim tilgangi að stofna ættleiðingafélag. Félagið hlaut nafnið Ísland Kórea og var síðar sameinað félagi sem stofnað var nokkru síðar. Hið sameinaða félag hlaut nafnið Íslensk ættleiðing og er því 36 ára í dag.
Til gamans og fróðleiks er hér, eins og stundum áður, birt fundargerð stofnfundar í heild sinni:
Stofnfundur.
Stofnfundur félagsins Ísland-Kórea, haldinn í Norræna húsinu 15.janúar 1978 kl. 16:00. Unnur Jónsdóttir setti fundinn fyrir hönd undirbúningsnefndar, og gerði grein fyrir aðdraganda stofnunar félagsins, sem er í stuttu máli þessi:
Fyrir u.þ.b. ári síðan var haldinn fundur foreldra Kóreubarnanna og á honum skipuð 3ja manna nefnd er vinna skyldi að stofnun félagsskapar fólks, sem á eða vill ættleiða börn frá Kóreu, þar sem það gæti rætt viðhorf sín og vandamál. Nefndina skipuðu þau: Unnur Jónsdóttir, Norma Norðdahl og Haukur Dór Sturluson. Nefndin lagði eftirfarandi fyrir fundinn:
Uppkast að samþykktum fyrir félagið Ísland-Kórea.
Félagið heitir Ísland-Kórea.
Tilgangur þess er:
a) að stuðla að gagnkvæmum menningar- og félagslegum tengslum Íslands og Kóreu.
b) Að veita aðstoð foreldrum, sem óska að ættleiða börn frá Kóreu, eða hafa gert það.
c) Að efla tengsl með þeim fjölskyldum, sem ættleitt hafa börn frá Kóreu
Félagar geta allir orðið, sem náð hafa lögaldri og óska að vinna að málefnum félagsins.
Stjórnin er skipuð: formanni, gjaldkera og ritara og skulu þeir kosnir á aðalfundi á hvert. Þá skal einnig kjósa tvo varamenn.
Aðalfundur skal haldinn árlega, ekki síðar en í október og skal hann boðaður skriflega með minnst 4ra vikna fyrirvara. Á aðalfundi skal fráfarandi stjórn gera grein fyrir störfum sínum og leggja fram endurskoðaða reikninga. Þá skulu þar kosin: stjórn, varamenn og tveir endurskoðendur. Aðalfundur ákveður árgjald hverju sinni.
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna, eða hreinan meirihluta félagsmanna.
Ákvæði til bráðabirgða: Stjórn sú sem kjörin verður á stofnfundi í ársbyrjun 1978 skal boða til aðalfundar félagsins ekki síðar en í október 1978 og skal þá fara fram stjórnarkjör og önnur aðalfundarstörf.
Elías Kristjánsson gerði þá breytingartillögu að c-lið 2.greinar yrði sleppt. Tillagan var felld. Lögin voru síðan rædd nokkuð og síðan samþykkt samhljóða.
Þá var gengið til kosningar stjórnar og trúnaðarmanna. Aðeins ein tillaga kom fram og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Stjórnina skipa:
Gylfi Már Guðjónsson, formaður
Ásrún Jónsdóttir, gjaldkeri
Ágústa Bárðardóttir, ritari
Varamenn:
Unnur Jónsdóttir
Njörður P. Njarðvík
Endurskoðendur:
Sigurður Sigurðsson
Elías Kristjánsson
Félagsgjald var ákveðið kr. 2000.- pr. mann á ári.
Loks hófust almennar umræður og var þá einkum rætt um stöðvun þá, sem Kóresk yfirvöld hafa sett á ættleiðingar barna til Íslands og hvaða leiðir væru til úrbóta. Fram kom að samband hefur verið haft við Utanríkisráðherra vegna málsins og mun hann hafa falið Pétri Eggerz að annast um það. Hann mun hafa óskað eftir formlegri beiðni skriflega og var nýkjörinni stjórn falið að skrifa ráðuneytinu umrætt bréf.
Ýmislegt fleira bar á góma á fundinum og skiptist fólk á upplýsingum. Fundinn sóttu u.þ.b. 30 manns. Vésteinn Ólason var skipaður fundarstjóri og Gylfi Már Guðjónsson ritari, en að loknu stjórnarkjöri skiptu þeir um hlutverk.
Fundi slitið 17:45.
Gylfi Már Guðjónsson