Íslensk ættleiðing fagnar 47 ára afmæli
Í dag fagnar Íslensk ættleiðing 47 ára starfstíð en þann 15. janúar árið 1978 var félagið Ísland-Kórea stofnað. Á þessum tíma voru komin til landsins 22 kjörbörn fædd í Kóreu. Nafni félagsins var breytt í Íslensk ættleiðing árið 1981 en sameinaðist félagið Ísland-Guatemala (stofnað 1980) árið 1983 undir fyrrgreindu nafni. Á þessum tíma var aðallega um að ræða ættleiðingar frá Indónesíu með aðstoð Hollendinga en næstu ár komu aðallega börn frá Sri Lanka, en einnig Kólumbíu, Tyrklandi, Líbanon og fleiri löndum. Það var svo árið 1987 sem félagið fékk formlegt starfsleyfi íslenskra yfirvalda. Ísland varð svo aðili að Haag samningnum um alþjóðlegar ættleiðingar og hlaut félagið löggildingu í kjölfarið sem jók skyldur félagsins við ættleiðendur er varðar þjónustu og ráðgjöf. Mikið hefur breyst frá þessum tíma en áskoranirnar ekki.
Af þessu tilefni m.a. skellti framkvæmdastjóri félagsins, Ásta Sól Kristjánsdóttir, sér í viðtal á í Morgunvaktinni á Rás 1 klukkan 7.30 í morgun. Kveikjan var sjónvarpsþáttaröðin Vigdís sem hófst á RÚV þann 1. janúar síðastliðinn en þar vakti athygli hversu mikið Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands þurfti að berjast fyrir að fá að ættleiða dóttur sína, en hún var einhleyp.
Þáttastjórnendur voru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir. Hlusta má á innslagið hér að neðan (mín. 27:06)