Kína hefur ekki lokað fyrir ættleiðingar
Vegna umfjöllunar í útvarpi núna síðdegis er vert að taka fram að ekki hefur verið lokað fyrir ættleiðingar frá Kína og ekkert bendir til þess að hægt hafi á ættleiðingum frá landinu á sínum tíma vegna ólympíuleika.
Hið rétta er að frá árinu 2006 hefur hægt á ættleiðingum frá landinu og þær ástæður sem gefnar hafa verið fyrir því eru að betur hefur gengið að ættleiða börn innanlands í Kína.
Í þessu samhengi má einnig geta þess að mjög hratt og vel hefur gengið að ættleiða börn, frá Kína, sem skráð hafa verið í hóp barna með skilgreindar þarfir. Nýjasta dæmið um það er frá þessum sólarhring, en frá því í nótt er enginn á þessum biðlista hjá félaginu.
Af átján börnum sem ættleidd voru með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á nýliðnu ári voru þrettán frá Kína og níu úr hópi barna með skilgreindar þarfir. Það er því að minnsta kosti ofmælt að halda því fram að Kína hafi lokað fyrir ættleiðingar úr landi.