Líðan fullorðinna ættleiddra á Íslandi
Hildur Ósk Gunnlaugsdóttir meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík var með erindi á málþingi Íslenskrar ættleiðingar þann 16. mars sl. Hildur er 29 ára og var ættleidd hingað til lands frá Indlandi þegar hún var 5 mánaða gömul. Hún kynnti rannsókn sem hún vinnur að og snýr að líðan og tilfinningatengslum uppkominna ættleiddra. En Hildur lýkur meistaranámi sínu núna í vor og við fáum vonandi tækifæri til að hlýða aftur á Hildi þegar hún hefur lokið meistaraverkefni sínu.
Íslensk Ættleiðing var í samstarfi við Hildi með að finna þátttakendur í rannsókninni, en alls voru þátttakendur spurningarlista 120 talsins, á aldrinum 18-45 ára. Niðurstöður rannsóknarinnar endurspegluðu 3 stærstu löndin, Indónesíu, Sri Lanka og Indland. Þá voru einnig tekin viðtöl við 7 þáttakendur á aldrinum 18-33 ára. Í niðurstöðum sem hún kynnti á málþinginu var komið inn á eftirfarandi þætti; aðskilnaðarkvíða, tengslamyndun í nánum samböndum, þunglyndiseinkenni, kvíðaeinkenni og lífsánægju uppkominna ættleiddra á Íslandi.
Í þeim niðurstöðum sem lágu fyrir í mars og Hildur kynnti fyrir okkur kom í ljós að þeir sem koma frá Sri Lanka og Indlandi koma verr úr á nokkrum þeirra þátta sem skoðaðir voru í rannsókninni. Það virðist vera sem svo að vandi með tengslamyndum og ótti við aðskilnað fylgi ættleiddum fram á fullorðinsár. Mikilvægt sé að fylgja þessum hóp eftir og það sé til staðar þörf fyrir frekari fræðslu til þess hóps.