Fréttir

Mbl - Ættleiðingaferlið tók tæp þrjú ár

Þórunn og Hrafnhildur Ming. mbl.is/Golli
Þórunn og Hrafnhildur Ming. mbl.is/Golli

Eftir langt og strangt ættleiðingaferli sem tók hátt í þrjú ár fékk Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður litla stúlku frá Kína, Hrafnhildi Ming. Í viðtali við Þórunni í Tímariti Morgunblaðsins á sunnudaginn kemur meðal annars fram að það sé rætt í þeim hópi fólks sem ættleitt hefur börn, hversu undarlegt það er að Ísland skuli vera eina landið á Norðurlöndunum sem styrkir ekki foreldra sem fara og ættleiða börn frá útlöndum.

„Sum stéttarfélög veita reyndar einhverja styrki en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum fær fólk ferðastyrki frá hinu opinbera. Þetta er einfaldlega spurning um jafnræði og réttlæti. Ríkið niðurgreiðir glasafrjóvganir og ætti því að styrkja þessa tegund barneigna líka, ellegar styrkja hvorugt, ekki satt? Auk þess sem ættleiðing á ekki frekar en annað sem lýtur að barneignum að vera háð efnahag fólks en einsog staðan er núna er ýmislegt sem bendir til þess. Fólk þarf að hafa sæmilegar og stöðugar tekjur til að kljúfa þetta. Sumir gera það reyndar með lántökum en fyrir ríkissjóð eru þetta engar upphæðir," segir Þórunn.

Það þykir sérstakt hér á landi að einhleyp kona ættleiði barn þótt það þyki sjálfsagt til að mynda í Bandaríkjunum. Vinum Þórunnar í útlöndum fannst þetta eðlileg ákvörðun og spurðu ekki sömu nærgöngulu spurninganna og sumir Íslendingar hafa gert og segir Þórunn að þótt allir væru mjög glaðir fyrir sína hönd voru sumir hissa á því að hún skyldi velja þessa leið. „Kannski sérstaklega á Íslandi því Íslendingar hafa nú löngum notað gömlu „baraðferðina" við að eignast börn, þ.e.a.s. með ókunnugu fólki. Það er ekki aðferð sem hentar mér."

Á Íslandi búa yfir 450 börn sem fædd eru í öðru landi en hafa verið ættleidd til íslenskra foreldra. Á síðasta ári voru 30 börn ættleidd til Íslands, flest frá Kína, en einnig frá Indlandi og Kólumbíu. Fyrstu börnin frá Kína komu til landsins 2002 og eru nú 32 ættleidd börn frá Kína þar af einn strákur.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2004/01/23/aettleidingaferlid_tok_taep_thrju_ar/


Svæði