mbl.is - Fólk í ættleiðingarferli í biðstöðu
Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, segir kórónuveiruna hafa haft áhrif á starfsemi félagsins eins og á annað í þjóðfélaginu. Foreldrar bíða nú eftir því að hitta börn sem þeir hafa verið paraðir við.
Búið er að para saman foreldra á Íslandi við börn erlendis og er nú verið að bíða eftir grænu ljósi.
„Það er verið að bíða eftir grænu ljósi frá upprunalöndunum. Annars vegar er verið að bíða eftir því að landamæri opnist og hins vegar að verðandi foreldrar fái heimild til þess fara inn á heimili barnanna. Þetta eru viðkvæmir staðir, barnaheimilin eða heimili þar sem börn eru í fóstri fyrir ættleiðingu. Það má ekki taka neina sénsa,“ segir Kristinn.
Foreldrar sem eru að bíða eftir því að ættleiða barn þekkja bið vel.
„Þetta ástand reynir mjög á. Þú venst því ástandi að bíða. Þú getur alveg orðið óþolinmóður og viðþolslaus en það er bara eitthvað ástand sem þú þekkir. Svo kemur að þessu, þessari stórkostlegu breytingu í lífi þínu að þú veist að nú ert þú að bíða eftir nákvæmlega þessu barni.“
Kristinn segir að lokafrágangur ættleiðingar taki mismunandi langan tíma. Tilfinningalegu tengslin eru þó til staðar um leið og fólk fær senda mynd.
„Þú ert kominn með upplýsingar um barn og mynd af því og strax byrjar þú að tengjast þessu barni. Þarna ertu kominn á þann stað að barnið á þig tilfinningalega, þó að það sé ekki búið að ganga frá lagalega hlutanum enn þá,“ segir Kristinn. Hann segir fólk vera orðið foreldra í hjartanu.
Vinnuálagið hefur breyst á meðan kórónuveirufaraldurinn hefur verið í gangi. Færri fyrstu viðtöl hafa farið fram og um tíma var mjög rólegt í þeim hefðbundnu störfum sem félagið sinnir alla jafna, svo sem ráðgjöf og stuðningi við fjölskyldurnar eða leik- og grunnskóla sem allir hafa starfað með breyttu sniði. Þá hefur meiri samvera fjölskyldnanna vonandi verið uppbyggjandi tími og tilvalið að nota hann til að styrkja tengslin.
Allir samstarfsaðilar Íslenskrar ættleiðingar erlendis eru nú að vinna að heiman þar sem skrifstofur hafa lokað og engin ný vinna hefur farið í gang þar sem öll upprunalöndin loka nú landamærum sínum.
Kristinn segir starf sitt vera besta starf í heimi.
„Kjarni ættleiðingafélagsins er að vinna í þágu barna, munaðarlausra barna. Í öllum tilfellum er um að ræða barnaverndarmál í upprunalandi þeirra, en þau eiga rétt á því að eiga fjölskyldu. Fólkið sem nýtur þjónustunnar hér á ekki rétt á því að vera foreldrar en hefur til þess djúpa þrá. Íslensk ættleiðing er vettvangurinn til að tengja á milli barna sem vantar foreldra og fólks sem langar til að verða foreldrar. Þannig að þetta er algjört „win win“-ástand. Þarna eru allir að græða. Það er stórkostleg upplifun að fá að taka þátt í þessu ævintýri með þessum fjölskyldum.“
Kristinn segir starf sitt vera það skemmtilegasta í heimi. Hér er hann að skála með samstarfskonum sínum, Rut Sigurðardóttur og Ragnheiði Davíðsdóttur, fyrir fjölskyldu sem var að sameinast. Ljósmynd/Aðsend