mbl.is - Rannsaka misferli í ættleiðingum
Ráðist verður í opinbera rannsókn á alþjóðlegum ættleiðingum sem hafa tekið sér stað síðustu 70 árin í Svíþjóð. Tilefnið er umræða sem hefur verið áberandi upp á síðkastið um möguleg barnarán og misferli við ættleiðingarferlin.
Rannsóknin mun sérstaklega taka fyrir ættleiðingar á börnum frá Síle og Kína en undanfarið hafa komið upp á yfirborðið gögn sem benda til þess að ekki hafi allt verið með feldu í þeim ættleiðingarferlum.
Anna Singer, prófessor í fjölskyldurétti við Uppsala Háskóla hefur verið skipaður yfirmaður rannsóknarinnar. Vænta má niðurstöðu í nóvember 2023.
„Rannsakandinn mun skoða hvort að eitthvað óvanalegt hafi komið upp á varðandi þau lönd þar sem flestar ættleiðingarnar áttu sér stað, auk þess mun hann skoða þau lönd þar sem grunur leikur á um að eitthvað óvanalegt hafi átt sér stað,“ sagði Lena Hallengren félagsmálaráðherra í Svíþjóð.
Börnum rænt og logið að mæðrum
Sænskir fjölmiðlar hafa í gegnum árin vakið athygli á ýmsum misferlum er varða þessi ættleiðingarferli. Meðal annars frá tilvikum þar sem að mæðrum hefur verið talið trú um að nýfædd ungabörn þeirra hafi fæðst andvana, þvinguðum ættleiðingum, mannránum og fölsuðum gögnum um ættleiðingar.
Rannsóknin kemur í kjölfar vaxandi ótta um að börnum hafi verið stolið og færð til ættleiðingar án vitneskju líffræðilegu foreldra þeirra.
Skoðaðar verða reglugerðir í Svíþjóð er varða ættleiðingar frá 1950 fram til dagsins í dag. Rúmlega 60 þúsund börn voru ættleidd á því tímabili, aðallega frá Suður-Kóreu, Indlandi, Kólumbíu og Srí-Lanka. Þá hafa yfir 4 þúsund börn verið ættleidd frá Kína, oft voru þetta börn sem yfirvöld sögðu hafa verið yfirgefin af foreldrum sínum, að því er fram kemur í sænskum miðlum.
Ættleiðingar frá Kína og Síle sérstaklega teknar fyrir
Þó nokkur hneykslismál hafa komið upp í tengslum við ættleiðingu barna frá Kína. Varða þau meðal annars brottnám barna sem fæddust í óþökk við stefnu landsins sem kveður á um takmörkun íbúafjölda. Er talið að þeim börnum hafi verið stolið og seld til ættleiðingar af hinu opinbera víða um heim.
Í Síle hafa ólöglegar ættleiðingar barna einnig verið tekin til skoðunar. Hafa þá ættleiðingar sem áttu sér stað í stjórnartíð Augusto Pinochet frá 1973 til 1990 verið sérstaklega rannsökuð.