Merkilegar rannsóknir I
Í október síðastliðnum komu út tvær rannsóknargreinar um ættleiðingar á Íslandi í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum XI sem gefið er út af Félagsvísindastofnun HÍ í kjölfar ráðstefnunnar Þjóðarspegillinn. Önnur greinin er eftir þær Hönnu Ragnarsdóttur og Elsu Sigríði Jónsdóttur.
Rannsókn þeirra Hönnu og Elsu er eigindleg langtímarannsókn á högum, aðbúnaði og aðlögun ættleiddra barna og fjölskyldna þeirra á Íslandi. Tuttugu fjölskyldur, sem hafa ættleidd börn frá útlöndum, taka þátt í rannsókninni sem hófst árið 2005. Greinin fjallar um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar.
Rannsóknin leiðir í ljós að börnin hafa aðlagast vel innan fjölskyldna og leikskóla. Foreldrarnir höfðu lagt mikið á sig til að mynda gagnkvæm tengsl við börnin og gera þau örugg. Að mati leikskólakennara stóðu börnin öðrum börnum fyllilega jafnfætis og þeir voru bjartsýnir um að börnunum farnaðist vel í grunnskóla. Sjálfsagt er þó að hafa í huga að uppruni og litarháttur barnanna mun vekja forvitni og umtal og ef til vill valda einhverjum þessara barna óþægindum. Það skiptir því miklu að börnin séu örugg og félagslega sterk.
Greinina má sækja hér.