Fréttir

Námskeið í vináttuþjálfun fyrir 7-9 ára börn (2.-4.bekk)

Íslensk ættleiðing og KVAN bjóða í samstarfi upp á spennandi og vandað námskeið í vináttuþjálfun fyrir 7-9 ára börn (2.-4. bekk). Námskeiðið er sérlega gagnlegt fyrir þá sem vilja efla sjálfstraust sitt, sjálfsmynd og samskipti, þá sem eiga eða hafa átt í félagslegum vanda, eins og einangrun, vinaleysi, einelti eða höfnun. 

Námskeiðið er sérhannað og skipulagt af KVAN en starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins hafa mikla menntun og áralanga reynslu í námskeiðahaldi fyrir ungt fólk til að ýta undir meira sjálfstraust, bætta vináttufærni, sjálfsmynd, leiðtogahæfileika og betri líðan barna og ungmenna.

Námskeiðið er uppbyggilegt og um leið skemmtilegt og eflir börn til að takast á við þær félagslegu aðstæður sem upp koma í lífi þeirra. Til þess að geta tekist á við daglegt líf er mjög mikilvægt að hafa góða samskipta-, félags- og vináttufærni en þessir þættir skipta sköpum þegar kemur að líðan og heilsu barna. Að lenda í vandræðum í jafningjasamskiptum getur haft í för með sér víðtækar og langvarandi neikvæðar afleiðingar. Því er mikilvægt fyrir öll börn að fá fræðslu og þjálfun í þessum færniþáttum. Leiðtogafærni er einnig mjög mikilvæg og getur hjálpað börnum að vegna vel í lífinu. Allir geta verið leiðtogar ef þeir einungis fá tækifæri til þess, ásamt þjálfun og reynslu.

Skipulag

Námskeiðið er kennt á laugardögum frá klukkan 10:00-12:00, í 8 skipti, 2 klst. í senn, einu sinni í viku. Námskeiðið hefst þann 28. ágúst. Námskeiðið fer fram í sal okkar að Hábraut 1a, 200 Kópavogi.

Þar sem Íslensk ættleiðing niðurgreiðir hluta kostnaðar er námskeiðsgjaldið 60.000 krónur á barn en almennt verð fyrir utanfélagsmenn er 88.000 kr.  

Pláss er fyrir 14 börn á námskeiðinu.

Skráning fer fram í gegnum KVAN og fer fram hér:

 

 

 


Svæði