Norræn ráðstefna um ættleiðingar - samantekt
Síðasta föstudag, 15.september, var haldin norræn ættleiðingarráðstefna á vegum Nordic Adoption Council (NAC). Þema ráðstefnunnar var, Adoption – a lifelong process. Fjöldi fyrirlesara komu fram á ráðstefnunni, bæði innlendir og erlendir. Elísabet Hrund Salvarsdóttir framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar og formaður NAC bauð gesti velkomna á ráðstefnuna og lagði áherslu á mikilvægi þess að skilningur og þekking sé á þeim áföllum og því sem ættleidd börn hafa í sínum bakpoka til að þeim og fjölskyldum þeirra farnist sem best í lífinu. Í dag er sú upplifun að þessi skilningur sé ekki til staðar.
Ólöf Ásta Farestsveit forstjóri Barna- og fjölskyldustofu fór yfir samþættingu þjónustu í þágu barna og hugmyndafræðina þar á bak við. Rut Sigurðardóttir og Heiða Þorleifsdóttur sögðu frá sinni reynslu vegna ættleiðinga, Rut meira út frá hennar reynslu í vinnu fyrir Íslenska ættleiðinga en Heiða sinni persónulegu reynslu og baráttu sinni við að fá skilning fyrir sitt ættleidda barn.
Bergdís Wilson sálfræðingur, fór yfir áhrif áfalla á börn seinna á æviskeiði þeirra. Áföll geta átt sér stað þegar barn lendir í margvíslegri streituvaldandi reynslu en sú reynsla getur aukið streituviðbrögð svo mikið að barnið hefur bara tíma til að tryggja öryggi sitt. Oft eru því viðbrögð þeirra flokkuð sem ADHD, einhvera eða annar hegðunarvandi þó það sé ekki raunin ef skoðað er betur hvað barnið hefur upplifað á sinni ævi og við hvaða aðstæður það hefur búið. Kristin Gartner Askeland frá Norce í Noregi fór yfir rannsókn sem hún gerði ásamt öðrum um skynjun mismununar og geðheilbrigðis meðal þeirra sem hafa verið ættleiddir til Noregs erlendis frá. Hún ræddi einnig um aðrar rannsóknir sem hefðu verið gerðar sem sýna mikilvægi þess að það sé stuðningur og þjónusta til staðar fyrir börn sem eru ættleidd, uppkomna ættleidda og fjölskyldur þeirra.
Eftir hádegishlé var sýnt erindi frá Lynelle Long stofnanda og framkvæmdastjóra ICAV, InterCountry Adoptee Voices. Hún fór yfir fyrirfram ákveðnar spurningar um mikilvægi þess að það sé stuðningur frá upphafi, að hafa þekkingu á sínum uppruna, tekið sé tillit til þeirra áfalla sem barn hefur upplifað og áhrif þess á barnið og svo hversu mikilvægt það er að eiga möguleika á því að tala við aðra með sömu reynslu.
Anna Taxell og Anna Guwert frá Adoptionscentrum í Svíþjóð sögðu frá hópferðalögum til Kólombíu, þessar ferðir hafa verið farnar í mörg ár og hefur þátttaka alltaf verið góð. Ræddu þær að mikilvægt væri að undirbúningur fyrir svona ferð væri góður, boðið væri uppá stuðning og um ári áður er farið í upprunaleit, einnig hvað þær hafa lært á þessum ferðum.
Því miður komst Hanna Björk Atreye Sigfúsdóttir ekki vegna veikinda en að beiðni hennar fór Elísabet Hrund yfir helstu atriði ritgerðar Hönnu um ættleiðingar og tengslaröskun. David Asplund menningarmannfræðingur frá Svíþjóð hélt svo síðasta erindið um meistararitgerð sína um að skapa sína sjálfsímynd meðal fjölþjóðlegra og/eða milli kynþátta ættleiddra í Svíþjóð. Hann deildi einnig sinni persónulegu reynslu en í dag er hann að leita að blóðmóður sinni.
Í lok ráðstefnunnar var pallborðsumræður þar sem fjögur uppkomin ættleidd ásamt félagsráðgjafa/fjölskyldufræðingi Íslenskrar ættleiðingar ræddu málin og svöruðu spurningu bæði frá pallborðsstjóra og ráðstefnugestum í salnum.
Það var ánægjulegt að sjá að allir fyrirlestrar áttu erindi við þema ráðstefnunnar og vonum við hjá Íslenskri ættleiðingu að eftir ráðstefnunni hafi vaknað fleiri spurningar um hvað er gert í dag fyrir ættleidd börn og sýnt hafi verið fram á mikilvægi þess að til staðar sé góður skilningur og þekking á því sem ættleiddir og fjölskyldur þeirra fara í gegnum. Enda er ættleiðing ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að lagaleg ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða.