Fréttir

Nýjar reglur CCAA.

Í lok desember barst ÍÆ bréf frá Kína, með upplýsingum um nýjar reglur sem taka gildi þann 1. maí 2007. 

Að undanförnu hefur fjölgað mikið þeim umsóknum um ættleiðingar sem berast til Kínversku ættleiðingarmiðstöðvarinnar, CCAA. Á sama tíma er fjöldi barna sem laus eru til ættleiðingar takmarkaður og er langt frá því að geta mætt öllum óskum frá fjölskyldum erlendis.

CCAA stefnir að því með nýjum reglum sem eru kynntar hér á eftir að vernda hagsmuni barnanna og vinna samkvæmt Haagsamningi um verndun barna og alþjóðlegar ættleiðingar, þannig að ættleiðendur séu hæfir skv. Haagsamningnum og uppfylli kröfur sem gerðar eru til þeirra í Kína og einnig heimalandinu og umsækjendur geti boðið barni frá Kína bestu mögulegu uppeldisaðstæður.

Við óskum eftir að þið lesið bréfið vandlega og veljið þær fjölskyldur sem uppfylla kröfur hér á eftir og leggið inn umsóknir frá þeim. 

CCAA mun taka við og skoða umsóknir skv. eftirfarandi skilyrðum frá erlendum umsækjendum frá 1.maí 2007 og senda upplýsingar um börn til þessara fjölskyldna. Umsóknir frá öðrum umsækjendum sem ekki uppfylla skilyrðin verða ekki skoðaðar fyrr en allir hæfir umsækjendur hafa verið afgreiddir.

I. Ættleiðendur séu hjón, karl og kona, sem búa í traustu hjónabandi. Ef hvorugt hjónanna hefur verið gift áður þarf hjónaband að hafa varað í 2 ár, en sé um fyrri hjónabönd að ræða (hámark 2 skilnaðir) þarf hjúskapur að hafa varað í a.m.k. 5 ár.

 

II. Bæði eiginmaður og kona þurfa að vera orðin 30 ára en undir 50 ára aldri. Til að ættleiða barn með sérþarfir eiga bæði að vera orðin þrítug en yngri en 55 ára.

 

III. Bæði eiginmaður og kona verða að vera fullkomlega heilbrigð, bæði líkamlega og andlega, og mega ekki hafa eftirfarandi sjúkdóma:

1. AIDS

2. Geðræna sjúkdóma

3. Smitsjúkdóma á smitandi stigi

4. Blindu eða alvarlega sjónskerðingu á báðum augum eða blindu á öðru auga og ekkert gerviauga

5. Heyrnarleysi báðum megin eða málstol, sé um að ræða ættleiðingu barns með samsvarandi vandamál má gefa undanþágu frá þessari reglu.

6. Óvirkni eða vanvirkni útlima eða bol sökum skemmdar, útlimamissis, dofa eða vansköpunar, alvarlega vansköpun í andliti

7. Alvarlega sjúkdóma sem krefjast langvarandi meðferðar og sem stytta lífslíkur, svo sem illkynja æxli, rauða úlfa (lupus erithematosus) nýrnaveiki, flogaveiki, o.fl.

8. Hafa gengist undir stóra líffæraskiptiaðgerð á síðustu 10 árum.

9. Geðklofi (schizophrenia).

10. Lyfjagjöf vegna alvarlegra geðsjúkdóma, þunglyndis, oflætis eða kvíða skal vera lokið fyrir a.m.k. 2 árum

11. BMI (Body Mass Index) skal vera hámark 40. 

IV. Annað hjónanna verður að hafa örugga atvinnu. Árlegar tekju séu a.m.k. USD 10.000 á hvern fjölskyldumeðlim að ættleidda barninu meðtöldu og nettó eign sé ekki undir USD 80.000.

Í árstekjum mega ekki vera bætur vegna örörku, eftirlaun, atvinnuleysisbætur e.þ.h.

V. Bæði hjónin hafi menntun eftir grunnskóla, þ.e. menntaskóla, fjölbraut, iðnnám eða samsvarandi.

VI. Fjöldi barna undir 18 ára í fjölskyldunni nái ekki 5 og yngsta barnið sé a.m.k. orðið 1. árs. Sé um að ræða ættleiðingu barns með sérþarfir má gefa undan.þágu frá þessum fjölda barna undir 18. ára.

VII. Hvorki eiginmaður né eiginkona hafi hlotið refsidóma, þau verða að hafa góða siðferðiskennd og hlýða reglum og lögum.

Þau mega ekki:

1. Hafa sögu um heimilisofbeldi, kynferðisglæpi, hafa yfirgefið börn sín eða misnotað þau (þótt þau hafi ekki verið ákærð eða dæmd)

2. Hafa sögu um eiturlyfjanotkun, svo sem opium, morfín, marijuana, kókaín, heróín, methamfetamín o.þ.h. eða neyslu lyfja vegna geðsjúkdóma sem geta valdið ávanabindingu.

3. Hafa sögu áfengissýki á síðustu 10 árum.

Ættleiðingarumsóknir verða metnar sérstaklega ef annað hvort eiginmaður eða kona hafa færri en 3 minni háttar brot án dóms og liðin séu 10 ár síðan, eða færri en 5 umferðarlagabrot án þungrar refsingar.

VIII. Ættleiðendur verða að hafa þekkingu og skilning á ættleiðingu og vilja gefa munaðarlausu barni (eða barni með sérþarfir) hlýtt og kærleiksríkt fjölskyldulíf með ættleiðingunni og vera færir um að gefa barninu góða þroskamöguleika. Þeir hafi einnig góðan skilning á alþjóðlegum ættleiðingum og séu fullkomlega tilbúnir til að takast á við vandamál sem upp kunna að koma, svo sem hugsanleg veikindi, þroskatruflanir, aðlögunarvandamál o.þ.h.


IX. Ættleiðendur gefi skriflega í umsóknarbréfi sínu staðfestingu á að þeir muni samþykkja eftirfylgni og gera skýrslur um eftirfylgni eins og óskað verður eftir.

X. Árafjöldi eða aldur sem gefinn er upp í bréfinu gildir frá dagsetningu þegar umsóknin er skráð inn hjá CCAA.


Svæði