Okkar barnalukka
Við hjónin höfðum gefist upp á að eignast barn með hefðbundnu leiðinni eftir mörg ár af svekkjandi pissuprófum. Fórum í okkar fyrsta viðtal hjá Íslenskri Ættleiðingu árið 2015 og sóttum síðan námskeiðið „Er ættleiðing fyrir mig?“ árið 2016 sem var byrjunin á okkar barnaláni. Við fengum forsamþykkið okkar í júní 2017 og vorum komin á biðlista í Tékklandi í nóvember sama ár. Árin 2016 og 2017 einkenndust af mikilli pappírsvinnu og möppuskipulagi til þess að halda utan um allt. Strax jólin 2017 vorum við, vinir og fjölskylda viss um að það kæmi að þessu á örfáum mánuðum, þó svo að meðal biðtíminn væri um 2 ár. Ömmurnar fóru að prjóna og við breyttum til heimafyrir og gerðum barnaherbergi. Barnaherbergi sem átti síðan eftir að standa autt í þó nokkur ár.
Oft í gegnum árin sem við biðum fengum við tilfinninguna að nú kæmi símtal, það þyrfti sko að passa að hafa símann ekki á silent og helst hafa símann í hendinni allan daginn. Daginn sem símtalið kom loksins grunaði okkur ekki neitt. Klukkan þrjú seinni partinn þann 30.mars árið 2021 hringir síminn. Svandís sem vann að heiman vegna faraldursins sat við launaútreikninga þar sem stutt var í útborgun. Síminn hringir úr óþekktu númeri og sambandið er lélegt, aðeins heyrast stutt hljóðbrot frá karlmanni á hinni línunni. Símtalið slitnaði og Svandís heldur áfram að vinna. Mínútu seinna hringir sama númerið, þá tekst viðkomandi að segja „…staddur hérna á gosstöðvunum og lélegt samband“ áður en símtalið slitnar aftur. Svandís furðaði sig á því hver þyrfti að ná svona nauðsynlega í hana í slíku símasambandi, þekkti hún einhvern sem var að ganga að gosinu? Einhver náinn henni sem slasaði sig kannski? Hún þurfti ekki að velta því lengi fyrir sér þar sem síminn hringdi aftur og loksins náði Kristinn, þáverandi framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar að kynna sig. Svandís segir strax „er þetta símtalIÐ?“ já segir hann “það er drengur, fæddur 2019 og er á fósturheimili“.
Dagurinn var einkennilegur eftir það. Jói var staddur í gönguferð uppá Hellisheiði þegar Svandís hringir hágrátandi og segir honum að hlaupa heim því þau séu að fara í Reykjavík og fá frekari upplýsingar. Við áttum að funda með Íslenskri ættleiðingu seinna um daginn þegar að Kristinn væri kominn aftur til byggða. Gangan tók lengri tíma en allir áttu von á og vorum við mætt heim til Kristins rétt fyrir miðnætti um kvöldið. Ekki stóð til að fresta fundinum þó svo að honum langaði líklega ekkert meira en að skríða upp í rúm eftir langa göngu. Í rólegri stemmingu í stofunni hjá honum fórum við yfir öll gögn sem til voru um verðandi son okkar. Við tókum ákvörðun á staðnum og fengum að sjá nokkrar myndir, sem gerði þetta allt raunverulegt. Röðin var komin að okkur, við vorum að verða foreldrar.
Við bönkum uppá hjá mömmu hennar Svandísar um miðja nótt með gleðifréttirnar og sátum lengi vel með tár á vanga og horfðum á myndirnar af fullkomna barninu okkar.
Fyrsta myndin sem við sáum. Tekin Jólin 2020, Ýmir Kári er þá 18 mánaða.
Venjulega hafa verðandi foreldrar aðeins nokkrar vikur frá því að þau fá símtal og þangað til þau fara til heimalands barnsins en okkur var sagt að það gætu verið margir mánuðir í það þar sem covid var í fullum gangi þar. Það var þó ekki nema nokkrum vikum seinna sem við fáum þær upplýsingar að við séum að fara á svokallaðan núllfund á Zoom eftir 6 daga og fáum að hitta strákinn í Tékkladi eftir 14 daga. Við förum á fullt að gera og græja, bóka flug og gistingar og allt með smá auka flækjustigi þar sem miklar faraldurs takmarkanir voru gildandi í Tékklandi á þessum tíma. Allt tókst þetta þó og við vorum komin út 1.maí 2021. Þann 5.maí fengum við síðan loksins að hitta Ými Kára okkar.
Fyrsta myndin af okkur öllum saman
Aðstæðurnar við fyrstu kynni voru skrítin, inni í lítilli stofu vorum við, fósturfjölskyldan, þeirra félagsráðgjafi, íslenskur túlkur, sálfræðingur og lögfræðingur. Allir voru með símana á lofti að taka myndir og myndbönd af þessu stóra augnabliki, allir voru að horfa á okkur verðandi foreldrana og hvernig við nálguðumst barnið. Óraunverulegt að vera að hitta barnið þitt í fyrsta skipti með svona marga áhorfendur. Sem betur fer voru flestir farnir eftir hádegið þann dag og bara við, fósturforeldrarnir og túlkurinn eftir. Mikið spennufall og tilfinningarússíbani þarna fyrstu dagana. Við eyddum fyrstu vikunum inná heimili fósturforeldra á meðan hann var að venjast okkur, svo að hans aðlögun væri eins hnökralaus og hægt væri. Þegar að hann kom síðan til okkar yfir nótt í fyrsta skipti þá kom fósturmamman með til þess að hjálpa honum að aðlagast. Ferlið gekk ofboðslega vel, góð samskipti við fósturforeldrana skiptu öllu máli. Ótrúlegt hvað við náðum vel saman þrátt fyrir að geta ekkert talað, þau töluðu enga ensku og við enga tékknesku. Öll samskipti fóru fram í gegnum google translate á símunum.
Aðeins að kynnast pabba sínum, skoða úrið.
Ýmir Kári vildi mikið(og vill enn) láta halda á sér þannig að burðarpokinn varð fljótt okkar uppáhalds ferðamáti.
Við vörðum ófáum klukkutímum á leikvöllum víðsvegar um Tékkland.
Eftir 4 vikur í aðlögun með fósturfjölskyldunni þá héldum við yfir til Brno þar sem fjölskyldudómstóllinn er. Þarna var Júní kominn og veðrið orðið betra. Ýmir Kári var farinn að skilja mun meira í Íslensku og jafnvel farinn að segja nokkur orð. Hérna var hann hættur að kalla okkur Svandísi og Jóa og farinn að segja Mamma og Pabbi. Það var mjög gott að komast í stærri íbúð og í borgina þar sem starfsfólk talaði frekar ensku heldur en ekki. Þarna var einnig búið að létta á takmörkunum í landinu og máttu viðskiptavinir veitingastaða borða utandyra – nóg komið af jógúrti og cheeriosi á okkur! Mamma Svandísar kom til okkar og var hjá okkur í viku sem var ótrúlega dýrmætt. Bæði var mikilvægt fyrir Ými að kynnast fjölskyldunni sinni sem myndi síðan taka á móti honum á Íslandi en einnig var gott að fá kunnuglegt andlit eftir margar vikur af andlegu álagi, ein og í ókunnugu landi.
Amma Lína og Ýmir
Á þeim hátíðsdegi 17.júní 2021 fórum við fjölskyldan í dómshúsið og skrifuðum undir að við ætluðum að ættleiða Ými. Tveimur dögum seinna vorum við komin heim. Á móti okkur tók heit súpa, nýbökuð hjónabandssæla, blóm og pakkar handa Ými.
Loksins komin heim í Hveragerði eftir 31 tíma ferðalag.
Síðan að við komum heim höfum við kynnst betur sem fjölskylda, Ýmir er altalandi og fer í leikskóla hálfan dag. Honum finnst þó skemmtilegast að vera bara heima og leika sér með ryksuguna og borvélina. Við höldum enn samskiptum við fósturfjölskylduna enda er hún partur af uppruna Ýmis og mun alltaf tengjast okkur.